Landsbankinn lánaði tíu milljarða til Icelandair: MAX 8 vélar kyrrsettar

Icelandair Group hefur ákveðið að taka allar Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri, þrjár talsins, um óákveðinn tíma. Félagið gekk í gær frá samkomulagi við Landsbanka Islands um lán að fjárhæð tæplega tíu milljarða króna, eða 80 milljónir bandaríkjadala.

Í tilkynningu til kauphallarinnar sagði að samningurinn væri við innlenda lánastofnun. Samkvæmt heimildum Viljans er þar um að ræða Landsbanka Íslands.

Samhliða verða tíu Boeing 757 flugvélar í eigu félagsins settar að veði til tryggingar greiðslu lánsins. Þær eru flestar nokkuð komnar til ára sinna, eða um 20-25 ára gamlar.

Lánstími er til fimm ára og lánskjörin voru ekki gefin upp til markaðsaðila, sem er fremur óvenjulegt fyrir skráð félag á markaði.

Verri afkoma en árið áður, tap jafnvel 4-5 milljarðar

Gert er ráð fyrir að lánsfjárhæðin verði nýtt sem hlutagreiðsla inn á útgefin skuldabréf félagsins, en eins og fram hefur komið, hefur versnandi afkoma félagsins gert að verkum að hluti skuldabréfaflokka félagsins hefur verið gjaldfelldur, þar sem lánaskilmálar voru brotnir.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, sagði á kynningarfundi vegna uppgjörs fjórða ársfjórðungs 2018, að útlit væri fyrir að fyrsti ársfjórðungur nú (Q1) verði verri en fyrsti ársfjórðungur í fyrra. Það þýðir að tap félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins verður ekki undir 4 milljörðum króna, jafnvel eitthvað nær fimm milljörðum.

Þá hefur ekki verið tekið tillit til þess, að félagið er eins og fjölmörg flugfélög um allan heim, í vanda vegna Boeing 737 MAX 8 vélanna.

Áttu að fá 6 nýjar MAX í ár, 5 á næsta ári

Icelandair Group hefur ákveðið að taka allar Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri, þrjár talsins, um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Í tilkynningu segir að Icelandair fylgist náið með þróun mála og vinni áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref. Félagið gerir ekki ráð fyrir að kyrrsetningin hafi veruleg áhrif á rekstur félagsins.

Icelandair pantaði alls sextán flugvélar af gerðinni Boeing 737 MAX en aðeins þrjár höfðu verið teknar í notkun. Félagið hugðist taka við sex nýjum vélum af þessari gerð á þessu ári, en fimm vélum á því næsta.