Landsmenn fæddir 2002 eða fyrr fá 5.000 kr ferðagjöf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórn frumvarp til laga um ferðagjöf.

Um er að ræða útfærslu á áður boðaðri aðgerð ríkisstjórnarinnar um 1,5 milljarða króna innspýtingu til að örva innlenda eftirspurn eftir ferðaþjónustu, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.

Í frumvarpinu kemur fram að ferðagjöf er stafræn 5.000 króna inneign sem stjórnvöld gefa út til einstaklinga sem fæddir eru árið 2002 eða fyrr og eru með íslenska kennitölu. Samkvæmt frumvarpinu má nýta ferðagjöfina til greiðslu hjá eftirtöldum fyrirtækjum sem hafa starfsstöð á Íslandi:

  • Fyrirtæki með gilt leyfi skv. III. kafla laga um ferðamálastofu, þ.e.a.s. ferðaskrifstofur og ferðasalar dagsferða
  • Fyrirtæki með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e.a.s. gististaðir í flokki II-IV og veitingastaðir í flokki II og III, og fyrirtæki með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd til veitingastaða í flokki I
  • Ökutækjaleigur með gilt starfsleyfi skv. lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja
  • Söfn og fyrirtæki sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru

„Við afmörkun ferðagjafarinnar var haft að leiðarljósi að hún væri skýr, afdráttarlaus og eftir fremsta megni byggð hlutlægum þáttum fremur en huglægu mati.

Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gefa eigin ferðagjöf öðrum einstaklingi en hver einstaklingur má aðeins greiða með að hámarki 15 ferðagjöfum. Þá er með hliðsjón af sjónarmiðum um ríkisaðstoð lagt til hámark á heildarfjárhæð ferðagjafa sem hvert fyrirtæki megi taka við; almennt er það 100 milljónir króna en 25 milljónir króna hafi fyrirtækið verið metið í rekstrarerfiðleikum 31. desember síðastliðinn.

Ákvæði er í frumvarpinu sem undanþiggur ferðagjöfina skattskyldu.

Þar sem aðgerðin felur í sér ríkisaðstoð skv. 61. gr. EES-samningsins er gerður fyrirvari um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.

Starfshópur hefur undanfarið unnið að tæknilegri útfærslu á ferðagjöfinni og er sú vinna mjög langt komin. Meðal annars hefur verið þróað smáforrit í samstarfi við frumkvöðlafyrirtækið Yay sem einfaldar greiðslu með ferðagjöfinni, þó að það verði ekki skilyrði. Þess er vænst að ferðagjöfin verði virkjuð snemma í júní,“ segir þar ennfremur.

Framkvæmd og útfærsla Ferðagjafar verður kynnt nánar á kynningarfundi sem streymt verður á vef Ferðamálastofu næstkomandi þriðjudag, 26. maí, klukkan 9:00.