Á Landspítala liggja nú tveir sjúklingur með COVID-19 á smitsjúkdómadeild. Alls eru nú 301 einstaklingur í eftirliti á COVID-göngudeild, þar af 25 börn. Tíu sjúklingar eru í sérstöku eftirliti með tilliti til innlagnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá spítalanum nú í kvöld. Fimm starfsmenn eru í einangrun, 10 í sóttkví A (sóttkví í samfélaginu) og alls 225 í vinnusóttkví.
Í ljósi þess að faraldurinn er í veldisvexti, verkefni COVID-göngudeildar aukast daglega í samræmi við það, fleiri sjúklingar í eftirliti eru veikir, fjöldi starfsfólks er í sóttkví vegna útsetninga og nýlegrar komu erlendis frá, mönnun er með minnsta móti vegna sumarleyfa auk þess sem mikil óvissa ríkir um þróun faraldursins, innlagnatíðni og alvarleika veikinda, hafa farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítala ákveðið að setja spítalann á hættustig frá miðnætti í kvöld 22. júlí 2021.
„Í raun hefur spítalinn verið að færast af óvissustigi á hættustig undanfarna tvo sólarhringa með daglegum fundum viðbragðsstjórnar og farsóttanefndar og hertum sóttvarnaraðgerðum innan spítalans. Það er því eðlilegt að uppfæra viðbúnaðarstig til samræmis við þær aðgerðir,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Skilgreining á hættustigi á Landspítala er: „Orðinn atburður sem kallar á að starfað sé eftir viðbragðsáætlun. Aukið og breytt álag er á fjölmargar starfseiningar. Þetta getur falið í sér bæði breytta starfsemi og tilflutning á verkefnum og starfsfólki.“