Landspítalinn með reglur um sóttkví: Megum alls ekki sofna á verðinum

„Landspítali tekur sem fyrr virkan þátt í COVID-19 viðbragði stjórnvalda. Nú starfa tugir starfsmanna okkar við greiningar skimunarsýna í húsnæði og með tækjabúnaði sem Íslensk erfðagreining hefur lagt til meðan á uppbyggingu getu spítalans sjálfs stendur. Eins hefur COVID-19 göngudeildin tekið á móti einstaklingum sem greinst hafa með Covid-19 og sinnt þjónustu við þá,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans í pistli til starfsfólks.

„Enda þótt mesti krafturinn sé úr faraldrinum sjálfum í bili megum við alls ekki sofna á verðinum, eins og nýjustu vendingar í málinu árétta. Af því tilefni hefur sýkla- og veirufræðideildin okkar í Ármúla keyrt upp viðbragð sitt til að mæta þeirri þörf sem nú myndast. Ég vil þakka okkar góða starfsfólki snör viðbrögð og farsóttanefnd Landspítala, sem stýrir viðbúnaði spítalans, hefur beint því til heimsóknargesta sem hafa komið erlendis frá og eiga bókaðan tíma á dag- og göngudeildum innan 14 daga frá heimkomu að hafa samband við viðkomandi deild svo unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir,“ bætir hann við.

Og forstjórinn kynnir til sögunnar hertar reglur til að verjast því að smit berist inn á spítalann:

„Það er einnig afar mikilvægt að allir sem erindi eiga á Landspítala virði til hins ítrasta allar leiðbeiningar og reglur sem hér gilda. Þannig verndum við mikilvæga starfsemi og viðkvæma hópa. Farsóttanefndin tók svo þá ákvörðun í dag að starfsfólk og nemendur sem koma til náms og/eða starfa á Landspítala frá svæðum utan Schengen komi ekki til vinnu fyrr en að lokinni 14 daga sóttkví.“