Landspítalinn takmarkar enn viðveru aðstandenda fæðandi kvenna

Ljósmynd: Landspítalinn.

Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítala sem kom saman á daglegum fundi nú í hádeginu, hefur ákveðið að takmarka enn heimild feðra eða annarra aðstandenda fæðandi kvenna vegna Kórónuveirunnar.

„Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa nú beint þeim tilmælum til fæðingarþjónustunnar að takmarka frekar viðveru aðstandenda fæðandi kvenna í fæðingarferlinu,“ segir í fundargerð dagsins.

„Þannig er nú gert ráð fyrir að aðstandandi geti verið með hinni fæðandi konu í 1-2 klukkustundir fyrir fæðingu og 1-2 klukkustundir í kjölfar fæðingar.“

Smit kom upp hjá nýbökuðum föður á dögunum og þurfti í kjölfarið að herða reglur um aðgengi þeirra að Kvennadeild Landspítalans. Tekið hefur verið fyrir nærveru þeirra við keisaraskurði.