Verksamningur um byggingu fjölnota íþróttahúss og hliðarbyggingu var í gær formlega undirritaður í húsakynnum ÍR í Suður-Mjódd. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hans Christian Munck forstjóri, skrifuðu undir verksamning, byggingafyrirtækið Munck varð hlutskarpast í alútboði fyrr í vetur um hönnun og framkvæmdir við íþróttahúsið og hliðarbygginguna.
Fjölnota íþróttahúsið verður rúmir 4.300 fermetrar að stærð og hliðarbygging þess tæpir 1.300 fermetrar. Heildarkostnaður við þessi mannvirki er áætlaður 1,2 milljarður króna.
Húsið samanstendur af fjölnota íþróttasal, sem er á stærð við hálfan knattspyrnuvöll, auk æfingasvæðis fyrir frjálsar íþróttir í vesturenda hússins. Tveggja hæða hliðarbygging verður meðfram eystri langhlið salar og er í henni meðal annars gert ráð fyrir búningsaðstöðu, lyftingasal, geymslurýmum, tæknirými, salernisaðstöðu, aðstöðu fyrir áhorfendur og lyftu. Íþróttahúsið á að verða fullklárað og rekstrarhæft í ársbyrjun 2020.
Á svæði ÍR í Suður Mjódd er einnig verið að búa til nýjan frjálsíþróttavöll ásamt þjónustuhúsi, sem nú þegar er uppsteypt. Frjálsíþróttavöllinn verður tekinn í notkun í júlí í sumar. Einnig er gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss með parketgólfi með áhorfendasætum, en ekki hefur verið tímasett hvenær þær framkvæmdir hefjast.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þetta hafi verið hátíðleg stund að viðstöddum fjölmennum hópi ÍR-inga. „Langþráð stund fyrir marga. Knatthúsið er hluti af stórum uppbyggingarsamningi borgarinnar og ÍR sem stendur einsog margir vita fyrir framúrskarandi starfi með börnum og unglingum í Breiðholti, og raunar íþróttafólki víðar að. Ég held að það sá á engan hallað þó ég fullyrði að ÍR er eitt fjölmennasta og faglegasta íþróttafélag landsins. Þess má geta að verktakinn, Munck, er þegar byrjaður að koma sér fyrir, búið er að girða af svæðið og byggingarleyfið var veitt í gær,“ segir borgarstjóri.