Launakjör embættismanna og kjörinna fulltrúa leiðrétt á næstu dögum

Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, þar með talið forseti Íslands, forsætisráðherra og aðrir ráðherrar og alþingismenn, auk fjölmargra háttsettra embættismanna, eiga von á umtalsverðri eingreiðslu vegna launaleiðréttingar á næstu dögum. Fjármálaráðuneytið staðfesti það í svari við fyrirspurn Viljans í dag, en leiðréttingin kemur til vegna nýfallins dóms Hæstaréttar í máli héraðsdómara gegn íslenska ríkinu, þar sem skerðing á launum var dæmd ólögmæt.

Samkvæmt heimildum Viljans nemur leiðréttingin umtalsverðum fjármunum, auk þess sem laun hækka frá því sem miðað var við fyrir dóminn. Þannig geti ráðherrar átt von á greiðslu að upphæð vel á fjórðu milljón króna, fyrir skatt, og alþingismenn tæplega tvær milljónir. Þeir sem hafa svo álag á þingfararkaup, t.d. vegna formennsku í stjórnmálaflokki eða þingnefnd, fái svo á milli 2-3 milljónir króna.

Viljinn leitaði svara vegna málsins hjá skrifstofu Alþingis, en fékk þau svör þar, að uppgjör þessara mála væru alfarið í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þegar Viljinn leitaði þangað, fékkst staðfesting á fyrirspurninni og vísað til þess að Fjársýsla ríkisins vinni að leiðréttingu samkvæmt dómi Hæstaréttar. Ekki liggi enn fyrir hver greiðsla verður vegna leiðréttingar á viðmiði og hvað launin komi til að hækka eftir þá leiðréttingu, en gert sé ráð fyrir að það geti legið fyrir í næstu viku.  

„Laun þeirra sem hér falla undir verða birt á vef Stjórnaráðsins þegar leiðréttingu samkvæmt dómnum er lokið,“ en á meðfylgjandi tengli er að finna lista yfir þá sem þau embætti sem dómurinn varðar: Stjórnarráðið | Laun og starfskjör forstöðumanna og laun samkvæmt sérákvæðum í lögum (stjornarradid.is).   

Einnig taka laun nokkurra aðila hækkunum með hliðsjón af viðmiði laganna en það eru skrifstofustjóri Alþingis, umboðsmaður Alþingis, ríkisendurskoðandi, skrifstofustjóri Landsréttar og Hæstaréttar, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, dómarar Félagsdóms og lögmenn hjá ríkislögmanni, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.