Leggur til uppstokkun í nefndum þingsins og aukið samráð við ríkisstjórnina

Atli Ásmundsson fv. aðalræðismaður og blaðafulltrúi.

„Vel æfð leiksýning og uppákoma sem sett var upp i samgöngunefnd fyrir fjölmiðla vekur til umhugsunar stöðu stjórnarandstöðunnar,“ segir Atli Ásmundsson, fv. aðalræðismaður í Winnipeg og blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Atli var um áratugaskeið einhver þekktasti erindreki Framsóknarflokksins en fylgdi Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og fleirum svo yfir í Miðflokkinn. Hann er afar ósáttur við framkomu annarra stjórnarandstöðuflokka á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í dag, þar sem tillaga var gerð um að taka Bergþór Ólason af sem formann nefndarinnar.

Eins og Viljinn skýrði frá í gær, hafði verið ákveðið að Bergþór héldi þeirri stöðu sinni og tæki aftur við formennsku, nú þegar hann hefur snúið aftur úr launalausu leyfi.

Tillögunni um að Bergþór yrði ekki áfram formaður var vísað frá á fundinum, en Píratar, Viðreisn og Samfylking studdu hana auk stjórnarþingmannsins Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, Vinstri grænum.

Atli, sem er mikill áhrifamaður í Miðflokknum, telur að með uppákomunni í morgun sé komin upp ný staða á þingi og við henni þurfi að bregðast.

„Mér finnst að Miðflokksmenn og óháðir þingmenn ættu að beita sér saman fyrir því að uppstokkun verði gerð í nefndum þingsins og er staða M og óháðra ágæt í því. Síðan tel ég að mínir menn í M eigi í meira mæli að auka samráð við rikisstjórnina og styðja hana í þeim erfiðu kjaramálum og öðrum erfiðum málum sem framundan eru og falla að okkar stefnu.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Mér finnst miklu líklegra að hægt verði að hafa áhrif og ná fram stöku málum með vinsamlegum samskiptum við rikisstjórnina ,en með hinum stjórnarandstöðuflokkunum . Ríkisstjórnin hefur og talað um aukna samvinnu þvert á flokka,“ segir hann.

Atli bætir því við að Klausturmál hafi verið sett í umdeildan farveg í þinginu, en farvegur sé það þó. 

„Snýst málið um siðareglur, sem mikll vafi er að eigi við. Sumir alþingismenn hafa hinsvegar gleymt 8. grein siðareglna Alþingis, sem hljóðar svo:

Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.

Ekki tel ég vafa að forsetar þingsins passi upp á að sú grein sé virt,“ segir Atli Ásmundsson ennfremur.