Söguleg tíðindi urðu í dag með því að tveir þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar, þar sem vantrausti er lýst á ríkisstjórnina.
Jafnframt er farið fram á að þing verði rofið fyrir 26. júlí og efnt til almennra kosninga þann 7. september.
Flutningsmenn tillögunnar eru: Inga Sæland, Björn Leví Gunnarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gísli Rafn Ólafsson, Katrín Sif Árnadóttir, Halldóra Mogensen, Tómas A. Tómasson og Indriði Ingi Stefánsson.
Er tillagan svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina. Alþingi lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 26. júlí og efnt til almennra þingkosninga 7. september.“
Vantrauststillögur á ríkisstjórnir á Íslandi síðan 1900
Á vef Alþingis segir:
„Vantraust á ríkisstjórn er lagt fram og afgreitt sem þingsályktunartillaga. Um meðferð vantrauststillagna gilda ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Yfirleitt eru tillögurnar mjög stuttorðar.
Frá 1944 hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn í 24 skipti. Þar af var ein tillaga um vantraust á alla ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 1994 en henni var vísað frá að tillögu forsætisráðherra. Á tímabilinu var aðeins ein vantrauststillaga samþykkt. Það var árið 1950 þegar ríkisstjórn Ólafs Thors fór frá. Árið 1974 rauf Ólafur Jóhannesson þing áður en vantrauststillaga á ríkisstjórn hans kom til umræðu á þinginu.
Á tímabilinu 1909–1943 voru níu sinnum lagðar fram þingsályktunartillögur um vantraust á ríkisstjórn. Af þeim vantrauststillögum sem fluttar voru fyrir 1944 er þingrofið 1931 þekktast en Alþýðuflokkurinn hætti að veita minnihlutastjórn framsóknarmanna, undir forsæti Tryggva Þórhallssonar, hlutleysi sitt vegna ágreinings um kjördæmaskipan. Tryggvi rauf þing og boðaði til nýrra kosninga. Fjórar tillögur um vantraust á einstaka ráðherra voru lagðar fram á árunum 1911–1943.
Þrisvar sinnum hefur verið lögð fram tillaga um þingrof án tillögu um vantraust, tillaga Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar á 76. þingi 1956, tillaga Geirs Hallgrímssonar o.fl. á 100 þingi 1979 og tillaga Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens á 101 þingi 1979.“