Leggja til nýja lágbrú í Sundabraut

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fv. borgarstjóri í Reykjavík, og Þórarinn Hjaltason, fv. bæjarverkfræðingur í Kópavogi, leggja til breytt áform um fyrirhugaða Sundabraut, svo hraða megi verkinu og koma þessari mikilvægu samgöngubót í gagnið sem fyrst.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær benda þeir á að mik­il umræða hafi átt sér stað á und­an­förn­um ára­tug­um um legu Sunda­braut­ar, einkum um hvaða leið sé best við þver­un Klepps­vík­ur, sem líka er kölluð Elliðaár­vog­ur á kort­um.

„Nokkr­ar til­lög­ur hafa verið sett­ar fram um þver­un Klepps­vík­ur, m.a. um há­brú. Er þetta sá kost­ur sem lík­lega fæst­ir mæla með, ekki síst vegna kostnaðar, veðurs og vinda og óboðlegs aðgeng­is fyr­ir hjólandi og gang­andi. Lág­brú er veru­lega ódýr­ari og fell­ur mun bet­ur að lands­lagi og um­hverfi og hef­ur öllu minni sjón­ræn áhrif en há­brú.

Jarðgöng fengu já­kvæðar und­ir­tekt­ir borg­ar­yf­ir­valda fyr­ir um 15 árum, en sá kost­ur er fjár­hags­lega nán­ast óviðráðan­leg­ur. Ljóst er að jarðgöng eru tug­um millj­arða króna dýr­ari en lág­brú. Lág­brú er einnig veru­lega hag­stæðari en jarðgöng hvað varðar rekstr­ar­kostnað og aðgengi fyr­ir gang­andi og hjólandi veg­far­end­ur.

Mik­il­vægt er að skoðaður verði nýr mögu­leiki á lág­brú í stað til­lögu um lág­brú með teng­ingu við Holta­veg,“ segja þeir félagar í grein sinni.

Komið í veg fyr­ir bestu lausn­ina

„Til skamms tíma var svo­kölluð Innri-leið eða Eyja­leið með land­töku við Klepps­mýr­ar­veg ódýr­asti og besti kost­ur­inn. Þessi lausn, sem kynnt var á sín­um tíma í Aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur, er í dag ekki fram­kvæm­an­leg, þar sem borg­ar­yf­ir­völd samþykktu árið 2015 nýja byggð á svæði við Súðar­vog sem kem­ur í veg fyr­ir þá lausn. Reyk­vík­ur­borg og Vega­gerðin sitja nú uppi með val­kosti sem eru bæði dýr­ari og óhag­kvæm­ari.

Áhugi meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar á lagn­ingu Sunda­braut­ar hef­ur frá ár­inu 2011 verið í lág­marki, en 22. sept. 2011 var und­ir­rituð vilja­yf­ir­lýs­ing af hálfu inn­an­rík­is- og fjár­málaráðuneyta, Vega­gerðar­inn­ar og Sam­taka sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu, sem gerði m.a. ráð fyr­ir frest­un Sunda­braut­ar í 10 ár. Sunda­braut komst á ný inn á sam­göngu­áætlun 2013-2016 en greini­lega ekk­ert gert með þá samþykkt. Sú staðreynd, að Sunda­braut hef­ur ekki þegar verið byggð, á veru­leg­an þátt í því að al­gjört um­ferðaröngþveiti rík­ir í dag á höfuðborg­ar­svæðinu.

Sundabraut mun liggja af Kjalarnesi og inn í borgina.

Á face­booksíðu sinni hinn 20. sept. 2019 sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sam­gönguráðherra m.a. þetta: „Tveir val­kost­ir eru einkum tald­ir koma til greina. Ann­ars veg­ar jarðgöng í Gufu­nes sem miðast við nú­gild­andi skipu­lag og hins veg­ar lág­brú yfir Klepps­vík yfir á Holta­veg sem kall­ar á breytt skipu­lag á hafn­ar­starf­semi. Ég hef áður sagt að lág­brú yfir Klepps­vík sé fýsi­legri kost­ur en jarðgöng.“ Enn­frem­ur seg­ir hann í grein í Frétta­blaðinu 12. des. 2019, að „næstu skref að Sunda­braut verði kynnt fljót­lega“. Ekki er vitað til þess að ein­hver viðbrögð hafi komið frá borg­ar­yf­ir­völd­um vegna of­an­greindra viðhorfa sam­gönguráðherra.

Lág­brú yfir Klepps­vík, sem teng­ist Holta­vegi, er lak­ur kost­ur út frá um­ferðarleg­um for­send­um; set­ur hafn­ar­starf­semi á svæðinu í upp­nám og kall­ar á veru­leg­an kostnað við upp­bygg­ingu nýs hafn­ar­svæðis.

Hér er kynnt til­laga um lág­brú, um 400 metr­ar að lengd, sem hef­ur land­tökustað á móts við Kjalar­vog og teng­ist við Sæ­braut í und­ir­göng­um. Til­lag­an fel­ur í sér óveru­lega skerðingu á at­hafna­svæði hafn­ar­inn­ar og ætti teng­ing­in jafn­framt að hafa lít­il sem eng­in áhrif á starf­semi fyr­ir­tækja á hafn­ar­svæðinu.

Ný skipu­lagstil­laga um legu Sunda­braut­ar felst í eft­ir­far­andi:

Mynd­in sýn­ir til­lög­una í meg­in­drátt­um. Rauð lína sýn­ir þver­un Sunda­braut­ar yfir Elliðaár­vog. Rauðar slitn­ar lín­ur sýna teng­ing­ar við Sæ­braut í göng­um. Græn­ar lín­ur sýna af­mörk­un nýrra land­fyll­inga. Land­tökustaður Sunda­braut­ar er nokk­urn veg­inn mitt á milli Holta­veg­ar og Klepps­mýr­ar­veg­ar.

Í sam­göngusátt­mála rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu (frá haust­inu 2019) er gert ráð fyr­ir því að Sæ­braut verði lögð í stokk á kafl­an­um milli Miklu­braut­ar og Holta­veg­ar. Hér er hins veg­ar gert ráð fyr­ir að Sæ­braut sé aðeins í stokk á kafl­an­um milli Miklu­braut­ar og Skeiðar­vogs. Í þess­ari nýju til­lögu er ekki þörf á að hafa Sæ­braut í stokk á kafl­an­um milli Skeiðar­vogs og Holta­veg­ar, þar sem ekki er gert ráð fyr­ir að um­ferðar­straum­ar milli Sæ­braut­ar og Sunda­braut­ar fari um þenn­an kafla Sæ­braut­ar.

Til­lag­an felst m.a. í því, að göng fyr­ir teng­ing­ar Sunda­braut­ar við Sæ­braut til og frá suðri opn­ist um 200-300 m sunn­an Skeiðar­vogs. Þess­ar teng­ing­ar liggja und­ir mót Sæ­braut­ar og Skeiðar­vogs og auka því flutn­ings­getu gatna­mót­anna. Með þessu er líka upp­fyllt skil­yrði um að öll gatna­mót á meg­in­stofn­veg­in­um Reykja­nes­braut-Sæ­braut-Sunda­braut séu mis­læg.

Áætlaður kostnaður nýrr­ar til­lögu

Ætla má að stofn­kostnaður 1. áfanga Sunda­braut­ar, þ.e. milli Sæ­braut­ar og Borg­ar­veg­ar í Grafar­vogi, yrði á bil­inu 35-40 millj­arðar kr. Til sam­an­b­urðar er lík­legt að val­kost­ur um lág­brú með land­töku á móts við Holta­veg yrði um 15 millj­örðum kr. dýr­ari. Í þeim val­kosti þarf Sæ­braut­ar­stokk­ur að vera um 500 m lengri, eða um 5 millj­örðum kr. dýr­ari. Auk þess má gera ráð fyr­ir a.m.k. 10 millj­örðum kr. í bæt­ur til Faxa­flóa­hafna, Sam­skipa og fleiri aðila vegna skerðing­ar á hafn­araðstöðu og starf­semi fyr­ir­tækja.“