Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fv. borgarstjóri í Reykjavík, og Þórarinn Hjaltason, fv. bæjarverkfræðingur í Kópavogi, leggja til breytt áform um fyrirhugaða Sundabraut, svo hraða megi verkinu og koma þessari mikilvægu samgöngubót í gagnið sem fyrst.
Í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær benda þeir á að mikil umræða hafi átt sér stað á undanförnum áratugum um legu Sundabrautar, einkum um hvaða leið sé best við þverun Kleppsvíkur, sem líka er kölluð Elliðaárvogur á kortum.
„Nokkrar tillögur hafa verið settar fram um þverun Kleppsvíkur, m.a. um hábrú. Er þetta sá kostur sem líklega fæstir mæla með, ekki síst vegna kostnaðar, veðurs og vinda og óboðlegs aðgengis fyrir hjólandi og gangandi. Lágbrú er verulega ódýrari og fellur mun betur að landslagi og umhverfi og hefur öllu minni sjónræn áhrif en hábrú.
Jarðgöng fengu jákvæðar undirtektir borgaryfirvalda fyrir um 15 árum, en sá kostur er fjárhagslega nánast óviðráðanlegur. Ljóst er að jarðgöng eru tugum milljarða króna dýrari en lágbrú. Lágbrú er einnig verulega hagstæðari en jarðgöng hvað varðar rekstrarkostnað og aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Mikilvægt er að skoðaður verði nýr möguleiki á lágbrú í stað tillögu um lágbrú með tengingu við Holtaveg,“ segja þeir félagar í grein sinni.
Komið í veg fyrir bestu lausnina
„Til skamms tíma var svokölluð Innri-leið eða Eyjaleið með landtöku við Kleppsmýrarveg ódýrasti og besti kosturinn. Þessi lausn, sem kynnt var á sínum tíma í Aðalskipulagi Reykjavíkur, er í dag ekki framkvæmanleg, þar sem borgaryfirvöld samþykktu árið 2015 nýja byggð á svæði við Súðarvog sem kemur í veg fyrir þá lausn. Reykvíkurborg og Vegagerðin sitja nú uppi með valkosti sem eru bæði dýrari og óhagkvæmari.
Áhugi meirihluta borgarstjórnar á lagningu Sundabrautar hefur frá árinu 2011 verið í lágmarki, en 22. sept. 2011 var undirrituð viljayfirlýsing af hálfu innanríkis- og fjármálaráðuneyta, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem gerði m.a. ráð fyrir frestun Sundabrautar í 10 ár. Sundabraut komst á ný inn á samgönguáætlun 2013-2016 en greinilega ekkert gert með þá samþykkt. Sú staðreynd, að Sundabraut hefur ekki þegar verið byggð, á verulegan þátt í því að algjört umferðaröngþveiti ríkir í dag á höfuðborgarsvæðinu.
Á facebooksíðu sinni hinn 20. sept. 2019 sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra m.a. þetta: „Tveir valkostir eru einkum taldir koma til greina. Annars vegar jarðgöng í Gufunes sem miðast við núgildandi skipulag og hins vegar lágbrú yfir Kleppsvík yfir á Holtaveg sem kallar á breytt skipulag á hafnarstarfsemi. Ég hef áður sagt að lágbrú yfir Kleppsvík sé fýsilegri kostur en jarðgöng.“ Ennfremur segir hann í grein í Fréttablaðinu 12. des. 2019, að „næstu skref að Sundabraut verði kynnt fljótlega“. Ekki er vitað til þess að einhver viðbrögð hafi komið frá borgaryfirvöldum vegna ofangreindra viðhorfa samgönguráðherra.
Lágbrú yfir Kleppsvík, sem tengist Holtavegi, er lakur kostur út frá umferðarlegum forsendum; setur hafnarstarfsemi á svæðinu í uppnám og kallar á verulegan kostnað við uppbyggingu nýs hafnarsvæðis.
Hér er kynnt tillaga um lágbrú, um 400 metrar að lengd, sem hefur landtökustað á móts við Kjalarvog og tengist við Sæbraut í undirgöngum. Tillagan felur í sér óverulega skerðingu á athafnasvæði hafnarinnar og ætti tengingin jafnframt að hafa lítil sem engin áhrif á starfsemi fyrirtækja á hafnarsvæðinu.
Ný skipulagstillaga um legu Sundabrautar felst í eftirfarandi:
Myndin sýnir tillöguna í megindráttum. Rauð lína sýnir þverun Sundabrautar yfir Elliðaárvog. Rauðar slitnar línur sýna tengingar við Sæbraut í göngum. Grænar línur sýna afmörkun nýrra landfyllinga. Landtökustaður Sundabrautar er nokkurn veginn mitt á milli Holtavegar og Kleppsmýrarvegar.
Í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (frá haustinu 2019) er gert ráð fyrir því að Sæbraut verði lögð í stokk á kaflanum milli Miklubrautar og Holtavegar. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að Sæbraut sé aðeins í stokk á kaflanum milli Miklubrautar og Skeiðarvogs. Í þessari nýju tillögu er ekki þörf á að hafa Sæbraut í stokk á kaflanum milli Skeiðarvogs og Holtavegar, þar sem ekki er gert ráð fyrir að umferðarstraumar milli Sæbrautar og Sundabrautar fari um þennan kafla Sæbrautar.
Tillagan felst m.a. í því, að göng fyrir tengingar Sundabrautar við Sæbraut til og frá suðri opnist um 200-300 m sunnan Skeiðarvogs. Þessar tengingar liggja undir mót Sæbrautar og Skeiðarvogs og auka því flutningsgetu gatnamótanna. Með þessu er líka uppfyllt skilyrði um að öll gatnamót á meginstofnveginum Reykjanesbraut-Sæbraut-Sundabraut séu mislæg.
Áætlaður kostnaður nýrrar tillögu
Ætla má að stofnkostnaður 1. áfanga Sundabrautar, þ.e. milli Sæbrautar og Borgarvegar í Grafarvogi, yrði á bilinu 35-40 milljarðar kr. Til samanburðar er líklegt að valkostur um lágbrú með landtöku á móts við Holtaveg yrði um 15 milljörðum kr. dýrari. Í þeim valkosti þarf Sæbrautarstokkur að vera um 500 m lengri, eða um 5 milljörðum kr. dýrari. Auk þess má gera ráð fyrir a.m.k. 10 milljörðum kr. í bætur til Faxaflóahafna, Samskipa og fleiri aðila vegna skerðingar á hafnaraðstöðu og starfsemi fyrirtækja.“