Allir þingmenn Miðflokksins, með Karl Gauta Hjaltason, fv. sýslumann fremstan í flokki, hafa lagt frumvarp til laga fram á þingi, um breytingu á lögreglulögum þar sem gert er ráð fyrir að lögreglumenn öðlist verkfallsrétt að nýju.
Frumvarpið er stutt og skorinort. Lagt er til að 31. gr. lögreglulaga falli brott ásamt fyrirsögn og lögin taki þegar gildi.
Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum nr. 82/1986 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum. Fram til þess tíma hafi lögreglumenn haft rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) með þeim fyrirvara að skylt var að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan á verkfalli stóð.
„Afnám verkfallsréttar var hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra í júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið, en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu ef ekki næðust samningar um kjör þeirra. Kauptryggingin átti að fela í sér sömu meðalhækkun launa og bandalög opinberra starfsmanna fengju á hverjum tíma. Þau félög sem miða átti við voru BSRB, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Samband íslenskra bankamanna og Bandalag kennarafélaga. Skyldi útreikningurinn vera í höndum Hagstofu Íslands.
Dregist aftur úr viðmiðunarstéttum
Allt frá því að samkomulagið tók gildi voru uppi ólík sjónarmið um framkvæmd þess milli lögreglumanna annars vegar og ríkisins hins vegar. Útreikningur kauptryggingar fór ekki fram fyrstu árin eins og til stóð og gerðu lögreglumenn ítrekað athugasemdir við það. Eftir mikinn þrýsting af þeirra hálfu framkvæmdi Hagstofa Íslands umrædda útreikninga árið 1988 að beiðni fjármálaráðherra. Samkomulagið hafði kveðið á um möguleika til endurskoðunar á útreikningum af hálfu Landssambands lögreglumanna en ekki var um slíkt að ræða í reynd. Landssambandið taldi því þegar hér var komið sögu að samningsréttarákvæði kjarasamningsins frá 1986 væru brostin og óskaði meðal annars eftir því að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt, en án árangurs.
Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Að þeirra mati hafa lögreglumenn dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er, til jafns við aðrar stéttir samfélagsins, náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.
Lögreglan sinnir afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramál varðar frekar en að stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þarf að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Hins vegar væri fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem eigi að síður væri hægt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur,“ segir ennfremur í greinargerðinni.
Þar er og vísað til þess að Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru.
„Starfsumhverfi lögreglumanna hefur tekið miklum breytingum á umliðnum árum og gerðar eru sífellt ríkari kröfur til lögreglumanna. Mætti þar nefna fjölmargar tækninýjungar sem lögreglan hefur tekið í þjónustu sína og ekki síður að afbrot hafa orðið flóknari. Hefur þetta leitt til þess að lögreglustarfið hefur þróast ört á síðustu árum og áratugum. Fyrir tæpum þremur árum var nám lögreglumanna fært á háskólastig og er nú tveggja ára diplómanám, en var áður eins árs nám við Lögregluskóla ríkisins, sem skilgreint var á framhaldsskólastigi. Má segja að auknar kröfur til lögreglustarfsins speglist ekki hvað síst í þessum breytingum,“ segir ennfremur í greinargerðinni.