Leggur til hert lög um útlendinga vegna fjölda hælisumsókna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd fyrir Viljann: Rúnar Gunnarsson.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem ætlað er að bregðast við bersýnilega tilhæfulausum umsóknum, stórfjölgun umsókna almennt sem erfitt hefur reynst að afgreiða og tryggja að framkvæmd þeirra og málsmeðferð þeirra mála sem undir þau falla sé skýr og gagnsæ.

Í frumvarpinu segir að nauðsynlegt sé að bregðast við fjölgun umsókna einstaklinga um alþjóðlega vernd, sem þegar hafa dvalið í öðrum aðildarríkjum Schengen áður en þeir komu til Íslands (e. secondary movement), svo að auka megi skilvirkni við vinnslu mála einstaklinga í þeirri stöðu. Er því meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er nokkur kostur, mælt fyrir um sjálfkrafa kæru í málum sem þessum, lagt til að kæra fresti ekki réttaráhrifum ef umsækjanda um alþjóðlega vernd hefur verið synjað um efnislega meðferð á þeim grundvelli að hann hafi þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, auk þess sem tilefni þykir til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar.

Þar segir jafnframt að aukin aðsókn umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi síðustu misseri sýni glögglega hve mikilvægt það er að standa vörð um verndarkerfið, ef vanda á meðferð umsókna þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd gegn ofsóknum, ýmist í stríðshrjáðum löndum eða ríkjum þar sem stjórnarfar býður upp á ofsóknir á hendur borgurum. 

Stórfjölgun umsókna

Á árinu 2016 fjölgaði umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi um 778, þ.e. umsóknir fóru úr 354 árið áður í 1.132 en þá hafði umsóknum einnig fjölgað verulega. Meiri hluti þessara umsækjenda voru ríkisborgarar Makedóníu og Albaníu, sem hafa verið skilgreind sem örugg upprunaríki á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, og umtalsverður fjöldi frá öðrum ríkjum þar sem fyrir liggur að almennt er engin ástæða til að flýja ofsóknir. Á árinu 2017 hélt þessi þróun áfram og þegar leið á árið var fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum, miðað við höfðatölu, þrátt fyrir legu landsins.

„Í kjölfar fordæmalausrar fjölgunar umsókna ríkisborgara öruggra upprunaríkja hér á landi kom í ljós að íslenskt verndarkerfi er að mörgu leyti berskjaldað fyrir ásókn þeirra sem senda inn bersýnilega tilhæfulausar umsóknir og annarra umsækjanda sem almennt má telja að séu ekki í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Vegna þessarar auknu ásóknar umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum lögðu stjórnvöld áherslu á hraðari afgreiðslu þessara mála með því að styrkja forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna. Með það að markmiði að auka skilvirkni og draga úr ásókn umsókna sem þessara á íslenskt verndarkerfi var reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 breytt með reglugerð nr. 775/2017.

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þar var meðal annars mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð, þ.e. forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, sem átti að stytta málsmeðferðartíma. Eftir gildistöku reglugerðarinnar mat kærunefnd útlendingamála það svo að ákveðin ákvæði umræddrar reglugerðar hefðu ekki fullnægjandi lagastoð og hefur henni því ekki verið beitt að fullu. Því er talin ástæða til að færa efni hennar að hluta inn í lögin sjálf. Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr fjölda bersýnilega tilhæfulausra umsókna báru verulegan árangur.

Fjöldi þeirra ríkisborgara frá öruggum ríkjum sem sótti um alþjóðlega vernd hérlendis dróst mjög saman á síðari hluta ársins 2017 og fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á framfærslu hér á landi dróst saman úr rúmlega 700 manns í ársbyrjun 2017 í rúmlega 400 þegar kom fram á árið 2018. 

    Að undanförnu hefur hins vegar á nýjan leik fjölgað í þeim hópi sem hér bíður niðurstöðu meðferðar umsókna sinna um alþjóðlega vernd og eru nú rúmlega 600 einstaklingar sem þiggja þjónustu meðan þeir bíða úrlausnar sinna mála eða endursendingu til annars ríkis.

Kostnaðurinn vex hröðum skrefum

Nú er svo komið að stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan ásættanlegs tíma og kostnaður við framfærslu umsækjenda um alþjóðlega vernd vex hröðum skrefum.

Í grunninn má segja að fyrir því séu tvær meginástæður. Í fyrsta lagi hefur fjölgað nokkuð í hópi þeirra sem hingað leita eftir vernd frá stríðshrjáðum löndum, ekki síst Írak og Afganistan. Í öðru lagi hefur þeim sem sækja hér um alþjóðlega vernd fjölgað umtalsvert á ný þrátt fyrir að vera ekki á flótta undan ofsóknum í sínu upprunaríki. Í síðarnefndum hópi er í fyrsta lagi fólk frá öruggum upprunaríkjum, í öðru lagi fólk sem ber samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni að sækja um og fá niðurstöðu um sínar umsóknir um vernd í öðru Evrópuríki eða hefur jafnvel þegar sótt um alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki og í þriðja lagi fólk sem þegar hefur fengið stöðu flóttamanns í Evrópu en kýs að koma hingað til lands og sækja um alþjóðlega vernd á nýjan leik.

Ástæða þykir til að bregðast við þessari fjölgun með því að styrkja stoð Dyflinnarreglugerðarinnar og einfalda málsmeðferð umsókna þegar umsækjandi hefur þegar hlotið alþjóðlega vernd svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma,“ segir þar ennfremur.

Í frumvarpinu segir jafnframt að mikilvægt sé að þeir einstaklingar sem hingað leita og eru í raunverulegri þörf fyrir alþjóðlega vernd fái umsókn sína afgreidda skjótt og örugglega svo að hefja megi vinnu við árangursríka aðlögun hér á landi. Frumvarpið sé liður í því að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða skjótt og örugglega umsóknir sem almennt leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar með því draga úr ásókn þessara hópa á íslenskt verndarkerfi.

„Er það grundvallarforsenda þess að stjórnvöld hafi rými til að beina athyglinni að þeim hópi umsækjenda sem er í raunverulegri þörf fyrir vernd og verndarkerfið er hannað fyrir. Það myndi einnig draga úr kostnaði ríkissjóðs og bæta meðferð opinbers fjár.“