„Það er aðeins tímaspursmál hvenær stéttarfélögin slíta þeim viðræðum sem nú eru á borði sáttasemjara og fara fram á verkfallsheimild. Sú niðurstaða hefur legið lengi fyrir,“ segir Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins í leiðara blaðsins í dag.
„Formenn félaganna skeyta ekkert um efnahagslegar staðreyndir heldur spila á tilfinningar fólks. Trump er nefnilega víða. Leiðarljósið er ekki endilega að ná samningum heldur er markmiðið sem slíkt stéttastríð,“ bætir hann við.
Hörður bendir á, að þá komi digrir sjóðir Eflingar og VR – samtals um 24 milljarðar – að góðum notum til að standa undir verkföllum og átökum.
„Eru félagsmenn VR, sem telja um 30 þúsund og eru að meðaltali með um 700 þúsund í heildarlaun, reiðubúnir að fylgja formanni sínum í fráleitar verkfallsaðgerðir? Um það má vonandi efast,“ segir hann.