Leikskólar lamaðir og enginn snjómokstur eða sorphirða vegna verkfalls

Fyrirhugað verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefst á morgun kl 12:30 og lýkur á miðnætti fimmtudaginn 13. febrúar.

„Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir munu standa yfir í tvo og hálfan sólarhring að öllu óbreyttu og hafa áhrif á rúmlega helming leikskólabarna í borginni eða um 3.500 börn. Verkfallið hefur einnig áhrif á 1.650 notendur velferðarþjónustu borgarinnar auk þess sem sorphirða frestast í þeim hverfum þar sem tæming á að fara fram samkvæmt sorphirðudagatali,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum.

„Mest verða áhrif verkfallsaðgerða Eflingarfólks á leikskólana auk matarþjónustu í grunnskólum. Þau börn sem fá vistun í leikskólum verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annar eftir hádegi. Fyrirséð er að matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar raskast og þurfa nemendur þar að koma með nesti í skólann. 

Velferðarsvið hefur fengið undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni er snýr að umönnun fatlaðs fólks, barna, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum. Eftir því sem verkfallstíminn lengist mun það hafa meiri áhrif á þá sem njóta velferðarþjónustu frá borginni. Þrif á heimilum fatlaðs fólks og aldraðra falla niður, sömuleiðis aðstoð við böðun. Ekki verður hægt að kaupa máltíðir á félagsmiðstöðvum og þá verður dagdvöl aldraðs fólks í Þorraseli lokuð á meðan verkfalli stendur.

Hjá Sorphirðunni frestast þjónusta en að auki er vetrarþjónustu eins og hálkuvörnum og snjóhreinsun ekki sinnt á meðan verkfall stendur yfir. Þá er ekki hreinsað í kringum grenndarstöðvar og ruslastampar ekki tæmdir.

Foreldrar/forráðamenn greiða ekki leikskólagjöld fyrir þá daga sem verkfall stendur yfir og ekki heldur fyrir máltíðir sem falla niður í grunnskólum.

Ef ekki nást samningar á milli borgarinnar og Eflingar nú í vikunni hefur verkalýðsfélagið Efling boðað til allsherjarverkfalls næstkomandi mánudag 17. febrúar,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.