Lést af völdum COVID-19 í Sunnuhlíð

Karlmaður um sjötugt, sem glímt hefur við COVID-19 í kjölfar hópsmits sem kom upp á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi, er látinn. Þetta staðfesta Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kristján Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sunnuhlíðar, við Viljann.

Tugir vistmanna og starfsmanna á Sunnuhlíð hafa greinst með smit undanfarið án þess að alvarleg veikindi fylgi í kjölfarið, nema í þessu einstaka tilfelli.

„Það er enn mikið um smit en sáralítið um veikindi.  Erum þó að vonast til að geta opnað eina deild fyrir takmarkaðar heimsóknir í lok þessarar viku eða um næstu helgi, fer allt eftir því hvernig málin þróast,“ segir Kristján í samtali við Viljann. Hann bætir við að starfsemin verði áfram þung í Sunnuhlíð þessa viku, að minnsta kosti.

Alls hafa nú 46 látist vegna COVID-19 hér á landi á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá því faraldurinn greindist fyrst hér á landi.