Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, segir í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, að ríkisstjórnin hafi haldið „leynifund“ með þingmönnum sínum um að koma orkupakka þrjú með leiftursókn í gegnum þingið.
„En það er ekki öruggt að þeir nái samt að koma aftan að þjóðinni í málinu, enda geta þeir illa rökstutt hvað fyrir þeim vakir og hvaða nauðsyn knýr þá áfram.“ segir hann.
„Bretland er ein af stórþjóðum ESB og borgar myndarlega með sér í selskapinn, þótt frú Thatcher tækist á sinni tíð, með því að sveifla gereyðingarvopni sínu, handtöskunni ógurlegu, að knýja hallarverði sambandsins til að endurgreiða Bretum nokkurn hluta þess sem henni þótti ofgreitt.
Beiskir búrókratar hafa gert nokkrar atlögur að þessum „ránsfeng“ hinnar fræknu frúar og meira að segja átt sér bandamenn hjá litlu drengjunum í hennar eigin landi, eins og þeir hafa átt víðar, eins og við þekkjum svo raunaleg dæmi um frá Íslandi.
Icesave hrópar enn sinn vitnisburð um þess háttar ódrengskap úr nýliðinni sögu og nú er enn hottað á litlu drengina út af meintri óhlýðni varðandi þriðja orkupakkann.
Hinum tveimur var lætt inn og einhverjir telja það brotaferli gott fordæmi fyrir áframhaldið!
Og sumir í hópi hinna litlu bregðast ekki vondum málstað og eru teknir að reima á sig hlaupaskóna, eins og viðbúið var.
Frú May myndi sóma sér vel í þeim hópi,“ segir Davíð jafnframt í Reykjavíkurbréfi sínu.