Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, telur ekki óeðlilegt að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eigi sæti í þriggja manna rýnihópi sem fari yfir skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið.
Gagnrýnt hefur verið að borgarstjóri eigi þannig að rannsaka eigin störf og ábyrgð. Hefur Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagt að hún ætli ekki að taka sæti í rýnihópnum ef Dagur ákveði að sitja þar sem fastast.
Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Líf:
„Mér finnst það eðlilegt því hann er æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar og æðsti yfirmaður borgarinnar og á meðan hann er það þá hlýtur hann að njóta einhvers trausts til að fara í saumana á því sem betur má fara innan stjórnsýslunnar. Þannig að að svo stöddu finnst mér ekkert að því að hann taki sæti í þessum hópi,“ segir Líf.
Líf gefur ekki mikið fyrir gagnrýni Hildar á veru Dags í rýnihópnum.
„Ef hann nýtur ekki trausts Hildar Björnsdóttur þá er það allt annað mál. Það er bara eðli pólitíkurinnar. … Hún er að setja upp pólitískt leikrit og það þarf auðvitað innistæðu fyrir því en á meðan ekkert annað hefur komið upp þá þarf þetta eðlilega að hafa sinn gang þar sem framkvæmdastjóri borgarinnar tekur á þessum málum og hvernig betur megi gera í framtíðinni.“
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir hins vegar við Morgunblaðið að það sá fásinna að Dagur ætli að skoða sjálfan sig og eigin verk.
„Ég tel að það sé algjör fásinna og algjörlega ófært ef þessi hópur kemst á laggirnar að Dagur sitji í því að skoða sjálfan sig og viðbrögð við sínum eigin afglöpum sem koma fram í skýrslunni. Þetta er merki um algjöra blindu á eigin verk. Ég hef gagnrýnt það frá byrjun og skipun þessa hóps.“