Lífið er flóknara en falleg færsla, og fátt er eins fallvalt og læk á Fésbók

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í nýársávarpi sínu.

„Vanlíðan fólks er iðulega rakin til samfélagsmiðla að einhverju leyti, fullsannað talið að sjálfsmynd margra ungmenna mótist af viðmóti annarra á Instagram og Snapchat, að sífelldur samanburður valdi minnimáttarkennd. Frábært er að ungir sem aldnir geti skipst á skoðunum, eflt vinskap og fylgst hver með öðrum. Í rafrænum heimi birtist hins vegar gjarnan glansmynd. Þar segjast svo margir vera svo hressir og glaðir, svo vinsælir og duglegir.“

Þetta sagði Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í nýársávarpi sínu í dag, þar sem hann fór yfir víðan völl, en beindi athygli ekki síst að virkum í athugasemdum á Netinu og auknum tækifærum fólks til að tjá sig á samfélagsmiðlum, sem ætti sér jafnframt skuggahliðar.

„En lífið er flóknara en falleg færsla, og fátt er eins fallvalt og læk á Fésbók,“ sagði forsetinn.

„Netið og miðlar þess skipa æ ríkari sess í samfélagi okkar: Fólk hefur svo miklu meira frelsi til að tjá sig en áður fyrr, fleiri leiðir til að láta rödd sína heyrast. Það er vel. Á hinn bóginn eru þessir kostir því miður ekki alltaf nýttir til góðs,“ sagði forsetinn ennfremur og rifjaði upp nýárávarp forvera síns, Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrir fimm árum, þegar hann benti á að hin nýja tækni gæti opnað „flóðgáttir neikvæðni, illmælgi og jafnvel haturs“.

„Þau orð Ólafs Ragnars eiga enn við,“ sagði forseti Íslands.

Megum ekki bara leyfa þeim að falla

Athygli vakti, að forsetinn tengdi ávarp sitt við dægurlagið Þannig týnist tíminn, eftir Bjartmar Guðlaugsson og var það flutt áður en ávarpið hófst. Vitnaði Guðni nokkrum sinnum í ljóðlínur lagsins og minntist sérstaklega á háa sjálfsmorðstíðni ungra karlmanna og unga fólkið sem við erum að missa vegna fíkniefnadjöfulsins.

„Eins skulum við gleðjast yfir því að á nýliðnu ári var röngum dómumhnekkt í einu umtalaðasta sakamáli síðustu áratuga. „Það er sól úti,“ var sagt íréttarsal þegar hillti undir þann réttlætissigur, „látum sól vera í hjarta okkar.“

Já, fögnum því sem fagna ber en áfram er svo margt sem gera þarf. Ég nefni hér ungdóm landsins. Við erum að missa ungt fólk. Í þessu landi velmegunar eru sjálfsvíg helsta dánarorsök ungra karlmanna. Í þessu landi frelsis og framfara verða of mörg ungmenni háð fíkniefnum og ávanalyfjum.

Við megum ekki bara leyfa þeim að falla, æskufólki sem á skilið aðstoð og von,“ sagði forseti Íslands.

Lesa má nýársávarp forseta Íslands í heild sinni hér.