Ríkisstjórnin kynnti yfirlýsingu sína vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins í dag. Aðgerðirnar eru víðtækar og stuðla að samfélagslegum umbótum fyrir allan almenning. Sérstaklega er horft til þess að styðja við ungt barnafólk og tekjulága. Aðgerðirnar eru afrakstur samráðs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins undanfarið ár.
42 aðgerðir til stuðnings lífskjarasamningum
Heildarumfang á samningstímabilinu 80 milljarðar.
Fæðingarorlof lengt í 12 mánuði.
Samanlagt geta breytingar á tekjuskattskerfi og barnabótum aukið ráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu um allt að 411 þúsund krónur á ári.
Víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og uppbygging félagslegs húsnæðiskerfis.
Dregið úr vægi verðtryggingar og ný neytendalán miðist við vísitölu án húsnæðisliðar.
Markvissar aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.
Barnabætur verði hækkaðar um 16% og dregið úr skerðingum barnabóta fyrir tekjulægri en skerðingarmörk fara þá frá árinu 2018 úr 242 í 325 þúsund krónur.
Heimild til að ráðstafa megi 3,5% lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa. Sambúðarfólk með samtals 650.000 í mánaðarlaun gæti svo dæmi sé tekið valið að nýta 273.000 krónur árlega skattfrjálst til öflunar húsnæðis.
Óverðtryggð íbúðalán verði valkostur fyrir alla tekjuhópa.
Heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán framlengd í tvö ár.
Ríki og sveitarfélög munu stuðla að verðstöðugleika með því að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% árið 2020 og minna ef verðbólga er minni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Aðgerðir stjórnvalda og þeir samningar sem nú hafa náðst á vinnumarkaði eru grundvöllur víðtækrar sáttar og skapa forsendur fyrir bæði félagslegan og efnahagslegan stöðugleika til langs tíma. Af hálfu stjórnvalda er um að ræða mikilvægar samfélagslegar umbætur, hvort sem um er að ræða réttlátara skattkerfi, uppbyggingu á félagslegu húsnæðiskerfi eða lengingu fæðingarorlofs; allt mun þetta styðja við aukna velsæld alls almennings og aukinn jöfnuð.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra: „Stjórnvöld eru í færum til að styðja við ábyrga kjarasamninga vegna styrkrar stöðu ríkissjóðs. Lækkun tryggingagjalds hefur nýlega verið lögfest og nú verða skattar á launatekjur lækkaðir í áföngum. Til verður nýtt lægra skattþrep sem tryggir mestan ávinning, 10.000 kr. á mánuði, til þeirra tekjulægstu á vinnumarkaði. Það er viðbótar skattalækkun fyrir þennan hóp frá því sem nýlega var kynnt. Heildaráhrifin eru til um 20 milljarða skattalækkunar sem jafngildir um 10% af heildarskattstofninum. Því er um að ræða eina allra stærstu skattaaðgerð seinni ára.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: „Ég lít svo á að gríðarlega stórt skref hafi verið stigið hér í dag, skref í átt að samfélagi þar sem skilyrði fyrir lífsgæðum ertu tryggð fleirum en hingað til hefur verið. Aðilar vinnumarkaðarins hafa náð ábyrgum samningum sem í samspili við útspil ríkisstjórnarinnar skapa skilyrði til stöðugleika, sérstaklega hvað varðar húsnæðismarkaðinn. Þau markvissu skref sem stigin eru í átt að afnámi verðtryggingar eru síðan sérstakt ánægjuefni fyrir Framsókn sem hefur lagt mikla áherslu á að áhrif hennar á kjör almennings verði takmörkuð sem mest.“
Kynning á yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga – Aukin velsæld á traustum grunni
Yfirlýsing ríkisstjórnar um markviss skref til afnáms verðtryggingar