Lífsskoðunarfélagið Siðmennt logar í illdeilum

Jóhann Björnsson tók aftur við formennsku í Siðmennt eftir hallarbyltingu í febrúar, en hefur nú hrökklast frá embætti.

Lífsskoðunarfélagið Siðmennt logar enn í illdeilum. Eins og Viljinn skýrði frá á dögunum, var gerð hallarbylting á aðalfundi félagsins og nýr formaður og framkvæmdastjóri tóku við, að sögn eftir að smalað hafði verið á fundinn, en nú hefur formaðurinn nýkjörni hrökklast frá og fleiri stjórnarmenn íhuga stöðu sína.

Mannlíf segir frá því í dag, að Jóhann Björnsson, sem tók óvænt við formennsku á umræddum aðalfundi 18. febrúar sl. og Sigurður Hólm Gunnarsson var felldur, hafði mætt gífurlegri andspyrnu undanfarnar vikur og loks látið undan og sagt af sér á stjórnarfundi 4. mars sl.

Nýr formaður félagsins, sem fær umtalsverða fjármuni úr hendi hins opinbera ár hvert, er Helga Jóhanna Úlfarsdóttir. 

Boðað hefur verið til aukaaðalfundar 24. apríl næstkomandi. Þar verður kosið um formann, stjórn og varamenn í stjórn, en Mannlíf greinir frá því að ástandið í Siðmennt sé mjög alvarlegt og fleiri úr stjórn hyggist segja af sér.