Líkamsleifar af sjómanni sem féll fyrir borð

„Þann 1. apríl síðastliðinn fundust líkamsleifar í Vopnafirði er rekið höfðu þar á land. Í samráði við og með aðkomu kennslanefndar ríkislögreglustjóra voru þær sendar til réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar á Landspítala og til DNA greiningar í Svíþjóð. Niðurstaða DNA greiningar liggur fyrir.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Þar segir að um sé að ræða líkamsleifar skipverja er féll 18. maí í fyrra fyrir borð af fiskiskipinu Erling KE-140 er það var á leið til hafnar í Vopnafirði.

Í samráði við ættingja er nafn hins látna tilgreint hér en hann hét Axel Jósefsson Zarioh og var fæddur árið 2001.