Líkamsræktarstöðvar munu ekki opna með hefðbundna starfsemi þegar tilslakanir á samkomubanni taka gildi frá og með 4. maí.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að til skoðunar sé að leyfa starfsemi slíkra stöðva utandyra með tilteknum takmörkunum, t.d. starfsemi hlaupahópa og annað slíkt.
Lengra sé þó í að hægt sé að hleypa Íslendingum aftur inn í líkamsræktarstöðvarnar sjálfar og engin dagsetning sem liggur fyrir enn í þeim efnum.
Víða erlendis er rætt um að líkamsræktarstöðvar geti verið lokaðar langt fram á sumar og jafnvel fram á haust, þar sem mikil hætta sé þar á snertismitum. Á það bæði við í tækjasal stöðvanna, á einstökum áhöldum eða dýnum og í búningsklefum.