Líkir andstöðu við þriðja orkupakkann við útrýmingaraðferðir nasista

Eirikur Rafn Rafnsson, starfsmaður Pírata.

„Hver sá sem segir þér að þriðji orkupakkinn snúist um valdaafsal Íslands til Evrópu, nauðungarsölu á Landsvirkjun, sjálfkrafa samþykki fyrir lagningu sæstrengs eða að það þurfi að virkja hvern einasta bæjarlæk samskvæmt skipunum frá ESB…. ER AÐ LJÚGA AÐ ÞÉR!“

Þetta skrifar Eiríkur Rafn Rafnsson, starfsmaður þingflokks Pírata, á Pírataspjallið í dag, en þar hefur verið tekist hart á um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins undanfarið.

Nú hafa yfir tíu þúsund manns ritað undir áskorun til Alþingis um að hafna orkupakkanum, auk þess sem Alþýðusamband Íslands lagðist gegn honum í dag með umsögn til Alþingis. Sama hafði formaður VR áður gert.

Eiríkur Rafn er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði sem lögreglufulltrúi hjá sérstökum saksóknara við rannsókn á orsökum og afleiðingu bankahrunsins. Einnig starfaði hann sem kosningastjóri Pírata í undanförnum Alþingiskosningum og hefur setið í framkvæmdaráði Pírata undanfarið ár.

Hann segir færsluna ekki ætlaða sem stuðningsyfirlýsingu við þriðja orkupakkann, heldur sé hún „almennt drull yfir Miðflokkinn og aðra hræðslupúka,“ eins og hann orðar það.

„Hættum að taka þátt í þjóðernispopúlistahræðsluáróðri Miðflokksins og tökum umræðu á staðreyndum. Að magna upp hræðsluna við eitthvað óskilgreint, flókið og útlenskt er sama taktík og nasistar notuðu við að útrýma gyðingum, sósíalistum, hommum og fötluðum,“ bætir hann við.

Fyrirlitleg afstaða til fólks

Einn þeirra sem gagnrýnir ummæli Eiríks, er Þór Saari, fv. þingmaður, en hann starfaði um skeið innan Pírata, var í framboði fyrir flokkinn og sat fyrir hans hönd í bankaráði Seðlabankans.

Þór Saari, hagfræðingur og fv. alþingismaður.

„Jæja. Og Píratar sem segjast sjálfir styðjast við gagnrýna hugsun í grunnstefnu sinni. Það fór fyrir lítið. Svo virðast þeir einnig hafa hent hinum „merkilega“ Píratakóða fyrir róða. Það að helsti starfsmaður flokksins taki þennan slag, sem er pólitískur slagur, með þessum hætti bendir til þess að þeir eru sundraðir og örvæntingafullir í málinu.

Enda alveg ótrúlegt að sjá hvernig þeir ganga fram í þessu máli, þvert gegn eigin stefnum og þvert gegn hagsmunum almennings. En þeir eru orðnir Fjórflokkur fyrir all löngu og kjósa greinilega að festa sig í sessi þar. Iss!“ segir Þór Saari.

Hann bætir við að nú þegar Píratar séu búnir að stimpla þá sem eru ekki sammála þeim nasista, þá sé ekki um annað að ræða en hvetja alla þá sem tengjast þeim að hugsa sinn gang, því menn gerist ekki ómálefnalegri en þetta.

„Fyrir utan að þetta er náttúrulega fyrirlitleg afstaða til fólks,“ segir Þór Saari.