Líkir Júróvision í Ísrael við Ólympíuleika nasista í Berlín 1936

Gunnar Smári Egilsson, forsprakki Sósíalistaflokksins. / Ljósmynd: Útvarp Saga

Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður og forsprakki Sósíalistaflokks Íslands, segir þátttöku Ríkisútvarpsins og listamanna á þess vegum í Júróvision í Ísrael vera reginhneyksli.

„Svona menningarviðburðir eru ætíð notaðir af fasískum stjórnvöldum til sjálfsupphafningar og til að sannfæra sitt fólk um blessun heimsbyggðarinnar yfir ofbeldi gegn borgurunum og stríði gegn nágrönnum,“ segir Gunnar Smári í færslu á fésbókinni.

„Júróvision í Ísrael eru próf á borð við ólympíuleikana í Berlín 1936. Nú eigum við að segja nei,“ bætir hann við.

Adolf Hitler var kanslari Þýskalands nasismans þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Berlín 1936 og hefur þeim verið lýst í sögunni sem mestu áróðurssýningu allra tíma. Áróðurs­meist­ar­inn Joseph Goebbels taldi að með leik­un­um mætti hafa mikla kynn­ingu fyr­ir hið nýja Þýska­land, þeir ættu að sýna fram á glæsileik hins aríska kynstofns og gefin var út tilskipun um að gyðingar mættu ekki taka þátt.

Frá setningarathöfn Ólympíuleikanna í Berlín 1936. Adolf Hitler í heiðursstúkunni.

Ummæli Páls Óskars vöktu reiði

Skemmst er að minnast þess á dögunum, er tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson lét þau ummæli falla í viðtali við Rás 1, að sniðganga ætti keppnina í Ísrael þar sem gyðingar hefðu ekkert lært af helförinni.

„Ástæðan fyrir því að restin af Evrópu þegir þunnu hljóði er sú að gyðingar eru búnir að sauma sig inn í Evrópu á mjög lúmskan hátt á mjög löngum tíma. Það er alls ekki hip og kúl að vera „pro-Palestína“ í Bretlandi,“ sagði Páll Óskar.

„Tragedían er sú að gyðingar lærðu ekki neitt af Helförinni. Í staðinn umbreyttust þeir í nákvæma afsteypu af sínum ógeðslegasta óvini.“

Voru ummæli Páls Óskars harðlega gagnrýnd sem gyðingahatur og baðst hann í kjölfarið velvirðingar á tilteknum ummælum sem hann hefði viðhaft, en hélt til streitu gagnrýni sinni á stjórnvöld í Ísrael.