Líkja má fylgistapi Sjálfstæðisflokks meðal eldri kjósenda við hrun

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.

Niðurstöður nýrrar könnunar á fylgi flokka, sem Zenter vann fyrir Fréttablaðið og birt var í gær koma Styrmi Gunnarssyni, fv. ritstjóra Morgunblaðsins, ekki á óvart. Hann segir þær sýna að Miðflokkurinn er að bruna fram og Framsókn að missa fylgi. Fróðlegt verði að sjá í næstu viku, hvort þessi könnun verður staðfest í þjóðarpúlsi Gallup, en hættan á slíkri þróun fyrir Framsókn hafi blasað við undanfarnar vikur vegna orkupakkamálsins.

Styrmir segir ennfremur í pistli á vefsíðu sinni að upplýsingar úr síðustu könnunum MMR sýni að Sjálfstæðisflokkurinn er að tapa verulega fylgi meðal eldri kjósenda og reyndar svo mjög að líkja megi við hrun.

„Þetta kemur heldur ekki á óvart. Þennan tón hefur mátt finna á fundum sjálfstæðismanna síðustu mánuði, aðallega þó í persónulegum samtölum.

Í báðum tilvikum er um að ræða framvindu, sem andstæðingar orkupakkans í báðum þessum flokkum hafa varað við en þingmenn flokkanna tveggja hafa haft þær aðvaranir að engu.

Þó hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjálfir upplifað þetta andrúmsloft á tveimur fundum undanfarnar vikur, vestur í Dölum og suður með sjó.“

Styrmir bætir við að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi enn ráðrúm til að breyta um stefnu. „Tvo mánuði,“ segir hann nánar tiltekið og vísar þar til þess að til stendur af hálfu stjórnarmeirihlutans að afgreiða innleiðingu þriðja orkupakkans á tveggja daga haustþingi í sumarlok.