Til marks um áherslur stjórnvalda sem stuðla vilja að bættu læsi og styrkja stöðu íslenskrar tungu hækka framlög í bókasafnssjóð höfunda um 62% samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020. Sjóðurinn úthlutar greiðslum vegna afnota á bókasöfnum til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa í samræmi við útlán. Sjóðurinn veitir rúmlega 76 milljónum kr. á þessu ári en mun á því næsta veita um 125 milljónum kr. til höfunda sem rétt eiga á greiðslum úr honum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.
„Ég tel mikilvægt að höfundar fái greitt fyrir afnot af sínum verkum og þessi hækkun nú er liður í því að koma til móts við óskir höfunda um sanngjarnari greiðslur fyrir útlán á bókasöfnum. Við höfum þegar stigið mikilvæg skref sem miða að því að efla útgáfu bóka á íslensku og hugum að fleiri aðgerðum í þágu íslenskrar tungu í samræmi við þingsályktun sem Alþingi samþykkti einróma í vor. Bókasöfnin í landinu eru samfélagslega mikilvæg, meðal annars sem jöfnunartæki og þekkingarveitur en þau veita aðgengi að fjölbreyttu efni sem fólk á öllum aldri nýtir sér,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Úthlutað hefur verið úr sjóðnum frá árinu 1998 þegar hann var formlega settur á laggirnar. Greitt er fyrir útlán ársins á undan en í fyrra hlutu 734 höfundar greiðslur fyrir afnot ársins 2017 sem þá námu 1,6 milljónum útlána á bókasöfnum hér á landi.