Lítur greinargerð um stjórnsýslu Seðlabankans mjög alvarlegum augum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist líta upplýsingar um stjórnsýslu Seðlabankans þegar kemur að gjaldeyriseftirliti mjög alvarlegum augum og ljóst sé að mistök hafi verið gerð. Hún segist vera að fara yfir greinargerð bankaráðs Seðlabankans um málið með lögfræðingum forsætisráðuneytisins með það fyrir augum að kanna hvort kalla þurfti eftir viðbótarskýringum eða gögnum sem tengjast málinu. Unnið sé að heildarendurskoðun á lögum um Seðlabankann og ljóst sé að horft verði til greinargerðarinnar í þeirri vinnu. Þá telur hún algjörlega ótvírætt að hún hafi haft heimild til að óska eftir greinargerðinni frá bankaráðinu, þar sem bankinn heyri stjórnskipulega undir sig og hlutverk bankaráðsins sé að hafa eftirlit með því að bankinn vinni í samræmi við lög.

Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, en Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, innti forsætisráðherra eftir viðbrögðum við þeim áfellisdómi sem Seðlabankinn hefur fengið í tvígang að undanförnu, fyrst frá Umboðsmanni Alþingis og síðan frá bankaráðinu sjálfu og einstökum bankaráðsmönnum vegna Samherjamálsins svokallaða.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.

Þorsteinn sagði ljóst að Seðlabankinn yrði að njóta trausts og stjórnsýsla hans yrði að vera hafin yfir vafa. Spurði hann ráðherrann hvort hún hyggist ekki grípa til aðgerða í ljósi þessarar niðurstöðu, jafnvel að stjórnendur bankans verði látnir axla ábyrgð.

Katrín kvaðst ekki reiðubúin að segja til um frekari aðgerðir af sinni hálfu fyrr en yfirferð ráðuneytisins lægi fyrir, en málið væri mjög alvarlegt. 

Þorsteinn spurði ráðherrann sérstaklega eftir viðbrögðum við bókun bankaráðsmannanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur, sem fram kom í greinargerðinni, um að yfirstjórn Seðlabankans hefði reynt að koma í veg fyrir að bankaráðið svaraði forsætisráðherra um málið, þar sem það kynni að brjóta gegn trúnaðarskyldum þeirra.

Sjá viðbrögð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra við ásökunum bankaráðsmannanna tveggja neðst í fréttinni.

Katrín sagði alveg ljóst að hún hafi heimild til að kalla eftir slíkum upplýsingum. Bankinn heyri undir sig, enda þótt gjaldeyriseftirlitið hafi verið á forræði fjármála- og efnahagsráðherra.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur í dag sent frá sér yfirlýsingu, þar sem hann mótmælir bókun bankaráðsmannanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur og segir fullyrðingar þeirra rangar.

Með greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands til forsætisráðherra, dags. 21. febrúar 2019, fylgdi bókun tveggja bankaráðsmanna þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við minnisblað frá lögfræðiráðgjöf bankans, dags. 7. desember 2018, um efnistök í greinargerð ráðsins með svari til ráðherra sem þá lá fyrir. Í bókuninni er það kallað óforsvaranleg afskipti af störfum bankaráðs. Í henni er fullyrt að minnisblaðið hafi falið í sér tilraun Seðlabankans til að koma í veg fyrir að bankaráðið svaraði ráðherra. Þessi fullyrðing kom verulega á óvart og er fjær öllu sanni.

Samkvæmt lögum sit ég bankaráðsfundi með tillögurétt og tek þátt í umræðum. Ég vík þó af fundi ef bankaráð ákveður. Ég sat ekki þá fundi þar sem bankaráðið vann að greinargerð sinni en flesta fundi þar sem bankinn lagði fram gögn í málinu eða útskýrði sjónarmið sín. Þá sat ég fund þar sem rætt var um fyrirkomulag vinnunnar og aðkomu starfsliðs bankans að henni. Á engum þessara funda svo mikið sem ýjaði ég að því að bankaráðið ætti ekki að svara forsætisráðherra. Reyndar þvert á móti. Auk þess gaf ég starfsliði bankans fyrirmæli um að aðstoða bankaráðið eftir því sem um væri beðið og senda fljótt og greiðlega umbeðnar upplýsingar og álitsgerðir. Það mætti eftir atvikum fara beint og án yfirferðar minnar enda bankaráðið hluti af Seðlabankanum. Fjölmargir starfsmenn lögðu á sig mikla vinnu til þess að aðstoða bankaráðið á þeim fjölmörgu viðbótarfundum sem til þurfti til þess að klára svarið til ráðherra. Einnig réð bankinn utanaðkomandi starfsmann til að vinna með bankaráðinu að greinargerð sinni.

Formaður bankaráðs óskaði hinn 5. desember eftir skriflegum athugasemdum frá Seðlabankanum við drögum að svari til ráðherra sem þá lágu fyrir. Minnisblað lögfræðiráðgjafar var hluti af þeim skriflegu athugasemdum og barst ráðinu 7. desember 2018. Efni þess laut að þeim lagaákvæðum sem eiga við um eftirlitsvald ráðherra gagnvart stofnun eins og Seðlabanka Íslands. Lögfræðiráðgjöf bankans er bankaráði innan handar eftir því sem óskað er eftir enda eins og áður segir er bankaráðið hluti Seðlabankans. Álit sem þannig eru veitt eru þá  unnin af bestu vitund og samvisku lögfræðinga bankans en það er síðan undir bankaráðinu sjálfu komið í hvaða mæli það er sammála slíkum álitum. Það er ekkert við það að athuga að bankaráðið eða einstakir bankaráðsmenn geri efnislegar athugasemdir við slík álit og að um þau eigi sér stað rökræn efnisleg umræða. Í þessu tilfelli var því ekki til að dreifa.

Bankinn og starfsfólk hans veitir bankaráði upplýsingar og álit. Það hefur hins vegar engin tök á að stöðva ákvarðanatöku bankaráðs. Bankaráðið er með eigin formann og getur fundað án seðlabankastjóra og annarra starfsmanna bankans og tekið þær ákvarðanir sem það vill.

Að lokum er rétt að árétta að umrædd bókun kemur mér og þeim sem í hlut eiga innan bankans verulega á óvart. Ekki var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum varðandi þær harðorðu ásakanir sem fram koma í umræddri bókun áður en hún var birt.

Már Guðmundsson
seðlabankastjóri