Ljót­asta brot gagn­vart stjórn­ar­skrá lands­ins sem hægt væri að hugsa sér

Þeir sem tala fyr­ir samþykkt þriðja orkupakkans og jafn­vel þeir áhrifa­menn sem hafa snú­ist eins og skopp­ara­kringl­ur í mál­inu, og áður í Ices­a­ve, virðast hafa þá einu af­sök­un fram að færa að yrðu fyr­ir­mæl­in frá Brus­sel ekki samþykkt þá myndi til­vera EES-samn­ings vera í hættu. Hvaðan hafa þeir það?

Að þessu spyr Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, þar sem hann lætur forystu Sjálfstæðisflokksins fá það óþvegið fyrir afstöðuna í orkupakkamálinu og undirlægjuhátt gagnvart Evrópusambandinu.

„Formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins gaf enga skýr­ingu á því hvers vegna hann umpólaðist á fá­ein­um dög­um í Ices­a­ve, öll­um á óvart, ef frá er tal­in dap­ur­lega klisj­an um „ískalt mat“.

Hann hafði talað á Alþingi af til­finn­inga­hita og sann­fær­ingu um fá­rán­leika þess að samþykkja orkupakka 3. Upp­tak­an er aðgengi­leg og full ástæða fyr­ir menn að hlýða á hana. Í hart nær ár var þetta boðskap­ur­inn og hann stóð því ekk­ert annað var sagt.

Öllum var því rótt. Hvenær hring­snún­ing­ur­inn varð í þetta sinn er ekki vitað og ekki held­ur hvers vegna hann varð,“ segir Davíð um eftirmann sinn, Bjarna Benediktsson.

Forsetinn hafði aldrei staðfest samninginn

Að mati Davíðs virðist eina hand­fasta skýr­ingin sem gef­in er fyr­ir þess­um vand­ræðagangi nú gagn­vart flokks­systkin­um og þjóð sú að EES-samn­ing­ur­inn sé ella í full­komnu upp­námi. Ísland hafi hingað til alltaf hlýtt. Það sé auðvitað miklu frem­ur til skamm­ar en boðlegt for­dæmi.

„En það er lág­marks­krafa að upp­lýst sé hver full­yrði þetta um EES-samn­ing­inn, þótt full­yrðing­in stang­ist á við samn­ing­inn sjálf­an og allt sem um hann var sagt við af­greiðslu hans á Alþingi,“ bætir hann við.

„Hitt er nær ör­uggt að hefði ein­hver spáð því við samþykkt EES-samn­ings­ins fyr­ir ald­ar­fjórðungi að Ísland myndi aldrei nýta sér al­menna heim­ild sína til að hafna kröfu um inn­leiðingu, og það þótt hvað eft­ir annað yrði höggvið nærri stjórn­ar­skránni, þannig að sam­an­lagt væri um mörg og ótví­ræð brot að ræða, þá hefðu flokk­arn­ir þar ekki af­greitt málið.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn myndi á þeim tíma hafa svarið að óhugs­andi væri að „boðvaldið“ í orku­mál­um þjóðar­inn­ar yrði flutt úr landi til yfirþjóðlegs valds, eins og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins orðaði það sjálf­ur svo vel úr ræðustól Alþing­is.

Vigdís Finnbogadóttir var forseti Íslands þegar EES-samningurinn var samþykktur.

Ef svo ólík­lega vildi til að þingið hefði, þrátt fyr­ir slíka stöðu, samþykkt samn­ing­inn þá leyf­ir bréf­rit­ari sér að full­yrða að þáver­andi for­seti Íslands hefði aldrei við þær aðstæður staðfest málið. Það hefði gengið í þjóðar­at­kvæði og verið kol­fellt þar.“

Almenningi snúið gegn EES-samningnum

„Nú eru stjórn­mála­menn hins veg­ar af full­komnu ábyrgðarleysi að leit­ast við að snúa al­menn­ingi í land­inu gegn EES-samn­ingn­um með því að full­yrða að sjálf­ur ör­ygg­is­ventill hans hafi verið blekk­ing frá upp­hafi. Sá sami sem var ein for­senda þess að sér­fræðinefnd um lög­mæti hans taldi að hann stæðist stjórn­ar­skrá og for­senda þess að samn­ing­ur­inn var samþykkt­ur.

Ef það er svo að ör­ygg­is­ventill­inn sé bara inni­halds­laust skraut til að plata ís­lenska þjóð þá stend­ur eft­ir að lög­gjaf­ar­vald þjóðar­inn­ar hafi verið flutt úr landi. Eng­inn get­ur hafnað því að það væri ljót­asta brot gagn­vart stjórn­ar­skrá lands­ins sem hægt væri að hugsa sér. Þjóð sem hef­ur ekki leng­ur vald yfir ör­fá­um mik­il­væg­um auðlind­um sín­um get­ur ekki hafa tapað þeim án þess að af­sala sér hluta full­veld­is síns um leið.

Hávær orðrómur um stjórnarskrárbreytingar

Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu að hávær orðrómur sé uppi um að nú standi yfir und­ir­bún­ing­ur, með fullri aðkomu Sjálf­stæðis­flokks­ins, um að breyta stjórn­ar­skránni „þannig að auðveld­ara verði en nú er (!) að koma full­veld­inu burt í hlut­um.

Því eru ekki hratt fækk­andi flokks­mönn­um færðar upp­lýs­ing­ar um þá vinnu? Sum­ir, og það jafn­vel starfs­menn í dóms­málaráðuneyt­inu, láta sig ekki muna um að ákveða að hluti dómsvalds­ins hafi þegar verið flutt­ur úr land­inu þótt það sé þvert á lög og þar með brot á stjórn­ar­skrá. Og af hverju var laga­ákvæðið um að Ísland væri óbundið af ákvörðunum Mann­rétt­inda­dóm­stóls sett? Jú, því hefðu ráðherr­ar og for­seti skrifað und­ir slíkt og því líkt hefðu þeir brotið stjórn­ar­skrána og mál út af því væri skylt að sækja fyr­ir Lands­dómi gagn­vart ráðherr­un­um.

Hver var það sem sagði skjálf­andi ís­lensk­um ráðherr­um það að EES-samn­ing­ur­inn væri fyr­ir bí ef Ísland hlýddi ekki nýj­ustu til­skip­un­inni af þeirri óboðlegu ástæðu að mik­ill meiri­hluti þjóðar­inn­ar væri á móti henni?“

Dæmisaga úr utanríkisráðuneytinu

Davíð segir í lok Reykjavíkurbréfs:

Bréf­rit­ari var í eitt ár ut­an­rík­is­ráðherra eft­ir að hafa verið á fjór­tánda ár for­sæt­is­ráðherra. Þá fór þar fram efn­is­lega eft­ir­far­andi sam­tal:

E (emb­ætt­ismaður): „Ráðherra. Ég verð að upp­lýsa ráðherr­ann um að ESB hef­ur þung­ar áhyggj­ur af af­stöðu Íslands út af um­ræddu máli og mun bregðast hart við ef ekki verður snar­lega bætt úr.
R: Hef­ur hann sagt það?
E: Hver?
R: ESB?
E: Það, mein­arðu?
R: „Það“ seg­ir ekk­ert. Það er ein­hver sem seg­ir það.
E. Já
R: Hver sagði það?
E: Við höf­um það frá fyrstu hendi.
R: Fyrstu hendi hvers?
E: Á æðstu stöðum.
R: Fyrstu hendi hvers?
E: Ég þarf að kanna hvort mér sé heim­ilt að upp­lýsa það.
R: Þú færð hér með í senn heim­ild til þess og kröfu um að upp­lýsa ráðherra mála­flokks­ins um það.
E: Okk­ar maður var stadd­ur í síðdeg­is­boði í skóg­ar­lundi og átti þar trúnaðarsam­tal við ná­inn aðstoðarmann yf­ir­lög­fræðings ESB sem kom þess­um skila­boðum áfram svo ekki varð mis­skilið.“

Og hann bætir við:

Hver hef­ur núna hrætt ís­lenska ráðherra upp úr skón­um með hót­un­um sem fá ekki staðist og skilið þá eft­ir í slíkri ör­vænt­ingu að aumk­un­ar­vert er upp á það að horfa? Er ekki nauðsyn­legt að upp­lýsa það?

Þetta er grund­vall­ar­atriði. Þetta er nefni­lega eina rök­semd­in sem lif­ir í mál­inu. Hvað sem menn sömdu um í vor, geta menn ekki lokið mál­inu nema upp­lýst sé hver heim­ild­in fyr­ir þess­um hót­un­um er. Það gef­ur auga leið.

Það get­ur ekki verið að aðstoðarmaður yf­ir­lög­fræðings­ins hafi aft­ur skokkað út í skóg. Eða get­ur það verið. Úti í skógi er mikið um full tré. Hver á núna ekki í fullu tré við aðstoðar­mann­inn? Á hans aum­ingja­dóm­ur að bitna á þjóðinni?

Hún mun ekki taka því. Aldrei.“