Þeir sem tala fyrir samþykkt þriðja orkupakkans og jafnvel þeir áhrifamenn sem hafa snúist eins og skopparakringlur í málinu, og áður í Icesave, virðast hafa þá einu afsökun fram að færa að yrðu fyrirmælin frá Brussel ekki samþykkt þá myndi tilvera EES-samnings vera í hættu. Hvaðan hafa þeir það?
Að þessu spyr Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag, þar sem hann lætur forystu Sjálfstæðisflokksins fá það óþvegið fyrir afstöðuna í orkupakkamálinu og undirlægjuhátt gagnvart Evrópusambandinu.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf enga skýringu á því hvers vegna hann umpólaðist á fáeinum dögum í Icesave, öllum á óvart, ef frá er talin dapurlega klisjan um „ískalt mat“.
Hann hafði talað á Alþingi af tilfinningahita og sannfæringu um fáránleika þess að samþykkja orkupakka 3. Upptakan er aðgengileg og full ástæða fyrir menn að hlýða á hana. Í hart nær ár var þetta boðskapurinn og hann stóð því ekkert annað var sagt.
Öllum var því rótt. Hvenær hringsnúningurinn varð í þetta sinn er ekki vitað og ekki heldur hvers vegna hann varð,“ segir Davíð um eftirmann sinn, Bjarna Benediktsson.
Forsetinn hafði aldrei staðfest samninginn
Að mati Davíðs virðist eina handfasta skýringin sem gefin er fyrir þessum vandræðagangi nú gagnvart flokkssystkinum og þjóð sú að EES-samningurinn sé ella í fullkomnu uppnámi. Ísland hafi hingað til alltaf hlýtt. Það sé auðvitað miklu fremur til skammar en boðlegt fordæmi.
„En það er lágmarkskrafa að upplýst sé hver fullyrði þetta um EES-samninginn, þótt fullyrðingin stangist á við samninginn sjálfan og allt sem um hann var sagt við afgreiðslu hans á Alþingi,“ bætir hann við.
„Hitt er nær öruggt að hefði einhver spáð því við samþykkt EES-samningsins fyrir aldarfjórðungi að Ísland myndi aldrei nýta sér almenna heimild sína til að hafna kröfu um innleiðingu, og það þótt hvað eftir annað yrði höggvið nærri stjórnarskránni, þannig að samanlagt væri um mörg og ótvíræð brot að ræða, þá hefðu flokkarnir þar ekki afgreitt málið.
Sjálfstæðisflokkurinn myndi á þeim tíma hafa svarið að óhugsandi væri að „boðvaldið“ í orkumálum þjóðarinnar yrði flutt úr landi til yfirþjóðlegs valds, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það sjálfur svo vel úr ræðustól Alþingis.
Ef svo ólíklega vildi til að þingið hefði, þrátt fyrir slíka stöðu, samþykkt samninginn þá leyfir bréfritari sér að fullyrða að þáverandi forseti Íslands hefði aldrei við þær aðstæður staðfest málið. Það hefði gengið í þjóðaratkvæði og verið kolfellt þar.“
Almenningi snúið gegn EES-samningnum
„Nú eru stjórnmálamenn hins vegar af fullkomnu ábyrgðarleysi að leitast við að snúa almenningi í landinu gegn EES-samningnum með því að fullyrða að sjálfur öryggisventill hans hafi verið blekking frá upphafi. Sá sami sem var ein forsenda þess að sérfræðinefnd um lögmæti hans taldi að hann stæðist stjórnarskrá og forsenda þess að samningurinn var samþykktur.
Ef það er svo að öryggisventillinn sé bara innihaldslaust skraut til að plata íslenska þjóð þá stendur eftir að löggjafarvald þjóðarinnar hafi verið flutt úr landi. Enginn getur hafnað því að það væri ljótasta brot gagnvart stjórnarskrá landsins sem hægt væri að hugsa sér. Þjóð sem hefur ekki lengur vald yfir örfáum mikilvægum auðlindum sínum getur ekki hafa tapað þeim án þess að afsala sér hluta fullveldis síns um leið.
Hávær orðrómur um stjórnarskrárbreytingar
Davíð segir í Reykjavíkurbréfinu að hávær orðrómur sé uppi um að nú standi yfir undirbúningur, með fullri aðkomu Sjálfstæðisflokksins, um að breyta stjórnarskránni „þannig að auðveldara verði en nú er (!) að koma fullveldinu burt í hlutum.
Því eru ekki hratt fækkandi flokksmönnum færðar upplýsingar um þá vinnu? Sumir, og það jafnvel starfsmenn í dómsmálaráðuneytinu, láta sig ekki muna um að ákveða að hluti dómsvaldsins hafi þegar verið fluttur úr landinu þótt það sé þvert á lög og þar með brot á stjórnarskrá. Og af hverju var lagaákvæðið um að Ísland væri óbundið af ákvörðunum Mannréttindadómstóls sett? Jú, því hefðu ráðherrar og forseti skrifað undir slíkt og því líkt hefðu þeir brotið stjórnarskrána og mál út af því væri skylt að sækja fyrir Landsdómi gagnvart ráðherrunum.
Hver var það sem sagði skjálfandi íslenskum ráðherrum það að EES-samningurinn væri fyrir bí ef Ísland hlýddi ekki nýjustu tilskipuninni af þeirri óboðlegu ástæðu að mikill meirihluti þjóðarinnar væri á móti henni?“
Dæmisaga úr utanríkisráðuneytinu
Davíð segir í lok Reykjavíkurbréfs:
Bréfritari var í eitt ár utanríkisráðherra eftir að hafa verið á fjórtánda ár forsætisráðherra. Þá fór þar fram efnislega eftirfarandi samtal:
E (embættismaður): „Ráðherra. Ég verð að upplýsa ráðherrann um að ESB hefur þungar áhyggjur af afstöðu Íslands út af umræddu máli og mun bregðast hart við ef ekki verður snarlega bætt úr.
R: Hefur hann sagt það?
E: Hver?
R: ESB?
E: Það, meinarðu?
R: „Það“ segir ekkert. Það er einhver sem segir það.
E. Já
R: Hver sagði það?
E: Við höfum það frá fyrstu hendi.
R: Fyrstu hendi hvers?
E: Á æðstu stöðum.
R: Fyrstu hendi hvers?
E: Ég þarf að kanna hvort mér sé heimilt að upplýsa það.
R: Þú færð hér með í senn heimild til þess og kröfu um að upplýsa ráðherra málaflokksins um það.
E: Okkar maður var staddur í síðdegisboði í skógarlundi og átti þar trúnaðarsamtal við náinn aðstoðarmann yfirlögfræðings ESB sem kom þessum skilaboðum áfram svo ekki varð misskilið.“
Og hann bætir við:
Hver hefur núna hrætt íslenska ráðherra upp úr skónum með hótunum sem fá ekki staðist og skilið þá eftir í slíkri örvæntingu að aumkunarvert er upp á það að horfa? Er ekki nauðsynlegt að upplýsa það?
Þetta er grundvallaratriði. Þetta er nefnilega eina röksemdin sem lifir í málinu. Hvað sem menn sömdu um í vor, geta menn ekki lokið málinu nema upplýst sé hver heimildin fyrir þessum hótunum er. Það gefur auga leið.
Það getur ekki verið að aðstoðarmaður yfirlögfræðingsins hafi aftur skokkað út í skóg. Eða getur það verið. Úti í skógi er mikið um full tré. Hver á núna ekki í fullu tré við aðstoðarmanninn? Á hans aumingjadómur að bitna á þjóðinni?
Hún mun ekki taka því. Aldrei.“