Loðnubrestur — ferðaþjónustubrestur

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Íslendingar lifa á útflutningi vöru og þjónustu. Það er svo einfalt. Nú er yfirvofandi svokallaður loðnubrestur, sem þýðir að líklega verður engin loðnuvertíð í ár. Á góðri loðnuvertíð verða á skömmum tíma til framleiðsluverðmæti upp á ca. 25 milljarða króna. Loðnubrestur þýðir að þær gjaldeyristekjur skila sér ekki. Það er högg fyrir sjávarútvegsfyrirtækin, starfsfólk þeirra og birgja – ríki og sveitarfélög. Enn er þó ekki útséð um að loðnan finnist við Íslandsstrendur, þannig að vonandi verður ekki af þessum búsifjum.“

Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún líkir loðnubrestinum við þá verkfallsógn sem blasir nú við ferðaþjónustunni í landinu.

„En færum okkur nú yfir í aðra útflutningsatvinnugrein — ferðaþjónustuna, sem nú er uggandi vegna yfirvofandi verkfallsaðgerða sem munu ef að líkum lætur verða beint gegn fyrirtækjum í greininni. Verkfallsaðgerðir í ferðaþjónustu, þó þær beinist eingöngu gegn einstökum fyrirtækjum eða greinum innan hennar, geta á skömmum tíma lamað hana alla og það er raunveruleg hætta á því að hún muni ekki geta skilað þeirri þjónustu sem hún hefur lofað viðskiptavinum sínum,“ segir hún.

„Það er raunveruleg hætta á því að ferðamenn hætti við að koma eða komist ekki til landsins og því verði lítil sem engin ferðaþjónusta í landinu um lengri eða skemmri tíma. Á degi hverjum aflar ferðaþjónustan að meðaltali 1,5 milljarða króna í gjaldeyristekjur. Það mun þá taka lamaða og laskaða ferðaþjónustu aðeins um 17 daga að tapa verðmætum á við heila loðnuvertíð. Er þá ótalinn skaðinn sem verður á orðspori landsins sem ferðamannalands og tjónið sem af honum hlýst inn í framtíðina,“ segir formaðurinn og bætir við:

„Brestur í ferðaþjónustu yrði því ekki síðra högg en loðnubrestur fyrir fyrirtæki, starfsfólk, ríki og sveitarfélög.“