Lofandi fregnir af bóluefni gegn COVID-19: „Stór dagur fyrir vísindin og mannkynið“

Blóðsýni sem notað er til að finna kórónaveiruna.

Lyfjarisinn Pfizer tilkynnti nú rétt áðan að fyrstu niðurstöður úr tilraunum á virkni bóluefnis gegn COVID-19 séu mjög lofandi og það virðist virka mjög vel við að koma í veg fyrir smit.

Sérfræðingar telja þetta mestu tíðindin til þessa í þróun bóluefnis gegn veirunni sem hefur sett heimsbyggðina á hliðina undanfarna mánuði og sækir sífellt í sig veðrið. Nú hafa ríflega 1,2 milljónir manna um heim allan látist af völdum veirunnar.

Þróun bóluefnisins er samvinnuverkefni Pfizer og BioNTech í Þýskalandi. Niðurstöðurnar sem kynntar voru í dag gefa til kynna að um 90% árangur náist í að koma í veg fyrir COVID-19 hjá þeim sjálfboðaliðum sem hafa tekið bóluefnið í tilraunaskyni undanfarnar vikur.

Sé sú reyndin, er það umtalsverð vörn sem jafnast á við þær bólusetningar sem skólabörn undirgangast um allan heim til að forðast algenga smitsjúkdóma. Ekki hefur enn sem komið er, orðið vart við alvarlegar aukaverkanir í þessum tilraunarannsóknum.

Pfizer hyggst nú sækja um neyðarleyfi til fjöldaframleiðslu bóluefnisins, samþykki sérfræðingar bandaríska lyfjaeftirlitsins niðurstöðurnar og er talið að hægt verði að bólsetja 15-20 milljónir manna fyrir áramót, ef allt gengur eftir.

„Dagurinn í dag er merkur dagur fyrir vísindin og mannkynið,“ sagði Dr. Albert Bourla, forstjóri Pfizer í yfirlýsingu til fjölmiðla nú um hádegisbilið að íslenskum tíma.

Hér má lesa tilkynningu Pfizer í heild sinni.