Loftslagsráð Sjálfstæðisflokksins er snemmbúin jólagjöf til Miðflokksins

Páll Vilhjálmsson. / Útvarp Saga, birt með leyfi.

„Loftslagsráð Sjálfstæðisflokksins er snemmbúin jólagjöf til Miðflokksins vegna þess að margir kjósendur með hægrisýn á pólitík og tilveru munu velja á milli þessara tveggja flokka,“ segir Páll Vilhjálmsson í samtali við Viljann nú í hádeginu.

Hann vitnaði á bloggi sínu í morgun í frétt Viljans um nýstofnað Loftslagsráð Sjálfstæðisflokksins, sem vakið hefur mikla athygli, og sagði Sjálfstæðisflokkinn stokkinn á glópalest sem tryði á manngert veður og þótt aðeins væri febrúar, væri ljóst að jólagjöf sjálfstæðismanna til Miðflokksins væri þegar komin.

„Loftslagsvá af mannavöldum er tilbúningur frjálslyndra vinstrimanna sem æ fleiri hægrimenn sjá í gegnum. Að Sjálfstæðisflokkur skuli taka undir áróður um manngert veðurfar er nýjasta dæmið um frjálslynda vinstrimennsku forystunnar,“ segir Páll ennfremur í samtali við Viljann.

Og hann bætir við:

„Þriðji orkupakkinn var sama marki brenndur. Forysta Sjálfstæðisflokksins fargar bæði fullveldinu og heilbrigðri skynsemi á altari frjálslyndrar vinstrimennsku.“