Lögbrot borgarinnar: Dagur vill draga lærdóm, ótrúlegt hneyksli segir Vigdís

„Þetta er ótrúlegt hneyksli – sem mun hafa miklar afleiðingar. Leikreglur lýðræðisins verður að virða og framkvæmd kosninga í lýðræðisríki þarf að vera hafin yfir allan vafa,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins um úrskurð Persónuverndar, sem birtur var í gær, og leiddi í ljós að Reykjavíkurborg hefði brotið persónuverndarlög með fjöldasendingum sínum til tiltekinna hópa í aðdraganda kosninga í fyrra.

„Það virðist allt á sömu bókina lært í Ráðhúsinu og stjórnsýslan er lömuð og efast má um réttmæti kosningar kjörinna fulltrúa. Ég hygg að borgarbúar séu komnir með alveg nóg af þessum borgarstjóra og meirihlutanum hans. Hvernig Píratar og Viðreisn og Vinstri græn geta endalaust skrifað upp á þessi vinnubrögð er með hreinum ólíkindum,“ bætir Vigdís við á fésbókinni um leið og hún deilir frétt Viljans um málið.

„Varðandi þetta hrikalega brot, þá er ekkert annað í stöðunni en að leita til sveitarstjórnarráðuneytisins og, eða, umboðsmanns Alþingis, því að Persónuvernd er eftirlitsstofnun á vegum ríkisins, sem er æðra stjórnsýsluvald en sveitarstjórnarstigið, þannig að málið er úr höndum Reykjavíkurborgar, segir Vigdís í samtali við Viljann.

„Þetta er mín sýn á málið og ég tel stórkostlegan vafa leika á því, að borgarstjórnarkosningarnar séu löglegar, og jafnvel þurfi að kjósa upp á nýtt, því í raun og sann eru þetta ekkert annað en kosningasvik. Það eru valdir þarna út markhópar og sendur út markpóstur til viðkomandi aðila í nafni stjórnvaldsins Reykjavíkurborgar, að mínu mati á röngum forsendum, því að Reykjavíkurborg og borgarstjóra kemur ekkert við hverjir kjósa og hverjir ekki.”

Kæmi til greina að senda málið til ÖSE

Vigdís segir kosningaréttinn er friðhelgan, og að hóparnir sem um ræðir, hafi verið sóttir á fölskum forsendum.

„Til dæmis til að safna um þá upplýsingum, sem hægt væri að nota síðar, t.d. í Alþingiskosningum, ef þær lækju út. Þetta er eitt grófasta mannréttindabrot og aðför að lýðræðinu hérlendis hin síðari ár, vegna umfangs málsins. Kaldhæðnin í málinu er sú að þetta var framkvæmt af sjálfri Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar,“ bætir hún við.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri / mynd: Samfylkingin.

Vigdís telur að í ljós hafi komið í úrskurði Persónuverndar, að upplýsingarnar hafi í fyrsta lagi verið sóttar á röngum forsendum, þar sem óskað var eftir upplýsingum um innflytjendur, en skilaboðin voru send á alla erlenda borgara í Reykjavík. 

„Í öðru lagi var formaður öldungaráðs Reykjavíkur, Ellert Schram, var fenginn til að skrifa textann í skilaboðunum til kvenna 80 ára og eldri, en sá hinn sami var á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hann tólk sæti sem varaþingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi fyrir jól. Reglur hafa verið brotnar langsum og þversum í þessu máli. Verði ekki leyst úr þessu á stjórnsýslustigi ríkisins, þá er vel til athugunar að skjóta málinu til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem hefur m.a. eftirlit með mannréttindum og kosningum í ríkjum Evrópusambandsins og víðar.“ 

Fékk samþykki Vísindasiðanefndar HÍ

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ræddi málið í fréttabréfi sem hann sendi frá sér í dag og segir mikilvægt að fara vel yfir það og draga af þeim lærdóm.

„Verk­efnið sem um ræðir var eitt af þeim sem borg­ar­ráð sam­ein­að­ist um að efna til með sam­þykkt til­lagna sem hópur sér­fræð­inga hafði unn­ið. Til­lög­unum var öllum ætlað að stuðla að auk­inni kosn­inga­þátt­töku, á einn eða annan hátt. Nið­ur­staða Per­sónu­verndar lítur meðal ann­ars að rann­sókn­ar­hluta verk­efn­is­ins en fræði­menn við Háskóla Íslands lögðu upp rann­sókn í sam­vinnu við borg­ina til að kanna hvort hvatn­ing til að kjósa hefði áhrif á ungt fólk, og hvort mis­mun­andi orðuð hvatn­ing hefði mis­mikil áhrif,“ segir hann.

Dagur segir að rann­sóknin hafi fengið sam­þykki Vís­inda­siða­nefndar Háskóla Íslands.

„Reykja­vík­ur­borg mun í kjöl­far nið­ur­stöðu Per­sónu­verndar fara yfir úrskurð­inn með sam­starfs­að­ilum í verk­efn­inu og draga lær­dóm af. Í þeirri yfir­ferð þarf m.a. að skoða hvernig fram­kvæmd okkar er frá­brugðin fram­kvæmd sam­bæri­legra verk­efna á Norð­ur­lönd­un­um, sem m.a. var horft til sem fyr­ir­myndar í verk­efn­inu,“ segir borgarstjóri.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Verið að misnota fólk

„Þarna var verið að misnota ungt fólk, innflytjendur og eldri borgara, hópa sem eru kannski í lakari stöðu til að sjá í gegnum svona lagað,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borginni í samtali við Viljann.

Kolbrún, sem er sálfræðingur, kvaðst vera slegin „yfir siðleysinu“ og segist varla trúa að þetta hafi gengið svona langt hjá meirihlutanum og borgarstjóra við að reyna að halda völdum eftir kosningar. 

„Við munum klárlega fylgja þessu eftir, við vitum ekki hvaða afleiðingar þetta hefur, við eigum eftir að klára að tala betur saman og skoða þetta ofan í kjölinn. Það er um algeran trúnaðarbrest að ræða og mógðun við lýðræðið. En þetta er svo sem í takt við annað sem við í minnihlutanum höfum gagnrýnt, þarna er hver skandallin á fætur öðrum, enn eitt stjórnsýsluhneykslið og hvernig farið er með fjármuni borgarbúa,“ segir Kolbrún, sem segist eiga von á að fulltrúar minnihlutans ræði saman strax eftir helgi um næstu skref.