Lögreglurannsókn á blaðamönnum heldur áfram eftir úrskurð Landsréttar

Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður kærði þá ákvörðun lögreglu að gefa honum réttarstöðu sakbornings. / Stundin.

Landsréttur hefur með úrskurði í dag vísað frá kæru Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, frá Héraðsdómi Norðurlands eystra. Dómari við héraðsdóm hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að lögreglan hefði ekki heimild til þess að gefa blaðamanninum Aðalsteini réttarstöðu sakbornings, en Landsréttur er ekki á sama máli.

Málið tengist hvarfi á síma Páls Steingrímsson skipstjóra hjá Samherja á Akureyri um það leiti sem hann veiktist mjög illa og var fluttur meðvitundarlaus með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Í greinargerð lögreglu kom fram að síminn hefði verið afhentur tilteknum aðilum og gögn úr honum afrituð. Meint brot vörðuðu lög um friðhelgi einkalífsins.

Eyþór Þorbergsson, varasaksóknari hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, segir í samtali við RÚV, að niðurstaða Landsréttar sé í samræmi við væntingar lögreglu og nú haldi rannsókn áfram með því að blaðamennirnir fjórir sem hafa réttarstöðu sakbornings verði kallaðir til skýrslutöku. Þeir eru, auk Aðalsteins, Þóra Arnórsdóttir á RÚV og Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum.

Úrskurðurinn var birtur á vef Lögreglunnar á Norðurlandi eystra nú í kvöld, en samkvæmt frétt á Stundinni hefur þegar verið ákveðið að leita leyfis hjá Hæstarétti til að áfrýja þessari niðurstöðu.