Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur ákveðið að taka til rannsóknar atvik er varðar Covid-19 smit áhafnameðlima um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270.
„Skipið kom til hafnar á Ísafirði þriðjudaginn 20. október sl. Af þeim 25 áhafnameðlimum sem voru um borð reyndust 22 smitaðir af covid-19. Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum miðar að því að afla upplýsinga og gagna um þá atburðarás sem varðar þessi smit og veikindi áhafnameðlima. Að svo stöddu hefur enginn réttastöðu sakbornings,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglu.
Þar segir jafnframt að ótímabært sé að gefa út frekari upplýsingar að sinni.