Loksins álpast Trump til að gera eitthvað rétt

Eftir Jóhannes Björn:

Trump álpast til að gera eitthvað rétt, að draga herlið BNA frá Sýrlandi, og pólitíkusar bæði til hægri og vinstri tryllast. Þessir einstaklingar á spena lobbýista hafa því sýnt sitt rétta andlit. Auðvitað fara þeir ekki sjálfir eða ættingjar þeirra út á vígvöllinn; það er hlutverk pöpulsins að láta slátra sér. Áróðursmaskínan lætur þessi endalausu stríð líta út eins og góðverk í þágu föðurlandsins, en vegna þess að yfirgnæfandi meirihluti fólks eru friðsamar manneskjur, þá verður að reka þennan áróður alveg stanslaust.

Þegar aðfangadagskvöld 1914 gekk í garð gerðist einstakur atburður á vígvöllum Evrópu. Fyrri heimstyrjöldin hafði staðið í fimm mánuði og á þessu stutta tímabili höfðu 800.000 ungir menn látið lífið eða særst. Menn veltu því eðlilega fyrir sér hvort blóðbaðið héldi sínu striki á jóladag. Breskir hermenn tóku upp á því að sýna vinahót með því að reisa skilti sem á stóð “gleðileg jól” — og stuttu seinna byrjuðu þýskir hermenn að syngja jólasálma.

Jóladagur rann upp og óvopnaðir breskir og þýskir óbreyttir hermenn mættust á svæðinu sem barist var um þá stundina og skiptust á smágjöfum, aðallega sælgæti eða tóbaki. Yfirmenn beggja fylkinga reyndu án árangurs að stöðva þessa óvæntu atburðarás. Fótboltaleikur endaði þannig að Þjóðverjar skoruðu þrjú mörk en Bretar tvö.

Tímaritið Parade lýsir eftirmálanum svona:

Á sumum svæðum hélt þessi skyndifriður áfram næsta dag vegna þess að hvorug fylkingin vildi hleypa af fyrsta skotinu. Styrjöldin hélt loks áfram þegar nýir hermenn voru sendir á svæðið, og yfirmenn beggja herja lýstu því yfir að “óformlegum gagnkvæmum skilningi” yrði í framtíðinni refsað líkt og um föðurlandssvik væri að ræða.”

Jóhannes Björn rithöfundur.

Þótt margir herforingjar og öfgafullir pólitíkusar líti á stríð sem einhvers konar leik eða keppni — og vopnaframleiðendum sé skítsama um allt nema uppgjör næsta ársfjórungs — þá eru venjulegir þegnar samfélagsins upp til hópa mjög friðsamir að eðlisfari. Sannleikurinn er sá að það þarf gífurlegan áróður og mikla orku til þess að fá meirihlutann til þess að brytja niður meðbræður sína í köldu blóði.

Fólk sem tárast þegar heimilishundurinn deyr — sem er fullkomlega eðlilegt — afsakar oft morð á milljónum einstaklinga í nafni þess að refsa beri þjóðum eða það verði að bola einhverjum illmennum frá völdum. Þetta eru svipuð rök og að halda því fram að heimili þar sem húsbóndinn stundar ofbeldi gegnvart börnunum sé best leiðrétt með því að skjóta börnin eða svelta til dauða.

Eftir fyrri heimstyrjöldina kom út bók sem hét „Endalaust stríð sem tryggir endalausan frið.” Titilinn er háð en nú, hundrað árum seinna, hefur stríðsáróðurinn sjaldan gengið betur.

Við fljótum að feigðarósi og ný heimstyrjöld virðist raunhæfur möguleiki. Til þess að brynja okkur fyrir áróðri stríðsherranna getum við haft þennan boðskap að leiðarljósi: Óskum öðrum aðeins þess sem við viljum að aðrir geri okkur.

Höfundur er rithöfundur.