Lokun álversins í Straumsvík yrði gífurlegt högg fyrir íslenskt samfélag

Þau tíðindi að Rio Tinto hafi nú til alvarlegrar skoðunar að hætta starfsemi álversins í Straumsvík hafa vakið mikil viðbrögð í dag, svo sem vonlegt er.

Viljinn hefur tekið saman hvað slík ákvörðun myndi þýða fyrir þjóðarbúið.

Hjá álverinu í Straumsvík starfa um 370 manns og eru laun umfram það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, en laun og launatengd gjöld nema 4,96 milljörðum.

Álverið ræður meira en 130 sumarstarfsmenn og er með 19 verktakasamninga við fyrirtæki sem eru með 143 starfsmenn í Straumsvík.

Kaup ISAL á vörum og þjónustu á Íslandi nema 5,35 milljörðum króna, þar af um þriðjungur frá fyrirtækjum í heimabæ álversins, Hafnarfirði.

ISAL greiðir Hafnarfjarðarbæ 448 milljónir króna í skatta.

Framleiðsla Isal nam 226 milljörðum árið 2018.

Eftir stærsta fjárfestingarverkefni á Íslandi frá hruni, sem nam um 60 milljörðum, var stigið næsta skref í virðiskeðjunni með alla framleiðslu Isal. Álverið framleiðir nú stangir af ólíkum stærðum með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini.

Álframleiðsla er þriðji stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar. Alls nam útflutningsverðmæti álframleiðslu á Íslandi um 230 milljörðum árið 2018 og innlendur kostnaður álvera nam 86 milljörðum.

Samtök iðnaðarins segja það mikið áhyggjuefni ef Ísland hefur misst samkeppnishæfnina í orkuiðnaði, enda skili orkusækinn iðnaður mikilli arðsemi fyrir þjóðarbúið og þar séu spennandi og vel launuð störf.

Fram hefur komið að tekjur Landsvirkjunar skerðast um 20 milljónir dollara eða 2,5 milljarða eingöngu við 15% samdrátt í framleiðslu álversins. Hlutfallslega er því hægt að finna út hvers konar risahögg það yrði fyrir fyrirtækið ef allri starfsemi í Straumsvík yrði hætt.