Löngu tímabært að samgöngufé skili sér til Reykjavíkur

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, undrast að ekki sé búið að kynna samkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu fyrir fulltrúum flokkanna í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur, en til stendur að skrifa undir það í dag.

Hann segir ekki vanþörf á að taka á þessum málum, en samráðsleysið veki furðu, þetta hafi ekki einu sinni verið rætt á lokuðum trúnaðarfundi borgarráðs nú í morgun.

„Fimmtán ára plan án samráðs við helming borgarfulltrúa kann ekki góðri lukku að stýra. Samkomulagið hefur tekið talsverðum breytingum og undirritun frestast vegna ósamkomulags um gjaldtöku og önnur atriði,“ segir Eyþór og bendir á að niðurstaðan virðist sú að fjármögnun með gjaldtöku sé enn óútfærð og fari sú heita kartafla í fangið á Alþingi. Það minni dálítið á Náttúrupassann sáluga, sem aldrei hafi neitt orðið úr.

„Það er löngu tímabært að samgöngufé skili sér til Reykjavíkur. Aðeins um 20% hefur skilað sér á höfuðborgarsvæðið á síðustu árum enda samningur um framkvæmdastopp frá 2012. Hér búa yfir 60% landsmanna.

Sjálfskipað svelti í samgöngumálum í áratug í boði borgarstjóra er farið að íþyngja landsmönnum öllum. Ríkið er tilbúið að grípa inn í. Hér þarf að gæta þess að fara vel með skattfé. Forgangsraða með arðsemismati og umferðalíkani. Útfærslan skiptir öllu,“ segir Eyþór ennfremur á fésbókinni.