Þorkell Sigurlaugsson, athafnamaður, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands og formaður velferðarnefndar Sjálfstæðisflokksins vandar Stefáni Einari Stefánssyni, ritstjóra Viðskiptamoggans ekki kveðjurnar á facebook síðu sinni. Tilefnið er athugasemd síðarnefnda við pistil Vilhjálms Bjarnasonar, f.v. þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fastan penna á Morgunblaðinu, sem birtist þar í dag undir yfirskriftinni „Eðli og inntak EES-samnings“, en í athugasemd við greinina sem hafði verið myndbirt á facebook hafði Stefán Einar skrifað: „Lygin er langorð.“
Fannst Þorkatli farið yfir strikið með þessari athugasemd, frá meðlimi af ritstjórn Morgunblaðsins – og gefur í skyn að Stefán Einar hafi áður gengið fram af hörku við að verja sjónarmið eins ritstjóra blaðsins í orkupakkamálinu, og spyr um siðareglur þess. Stefán Einar svaraði að bragði:
Sakar stuðningsmenn orkupakkans um fylgistap Sjálfstæðisflokksins
„Má ekki gagnrýna eða lýsa óánægju með viðhorf Vilhjálms Bjarnasonar af því að hann er fastur penni í blaðinu? Veistu það Þorkell, við búum ekki í Sovétríkjunum og hér er engin hugsanalögregla þótt þú reynir að hrella fólk með vísan í siðareglur eða notir stór orð um fólk sem er þér ósammála. Þú hefur gengið fram af ósanngirni og óbilgirni gagnvart fólki sem hefur haft uppi efasemdir um innleiðingu orkupakka 3 og ert með því orðinn einn af þeim mönnum sem mest hafa lagt drjúgan skerf að því að Sjálfstæðisflokkurinn tapar og tapar fylgi. Ef þeir sem harðast ganga fram í þessu hefðu fremur leitað leiða til að sætta ólík sjónarmið, í stað þess að traðka á sjónarmiðum sem eiga fullt erindi í umræðuna, þá væri betur komið fyrir flokknum.“
Þorkell segist þá hafa verið að gagnrýna að Stefán Einar, verandi í ritstjórn Morgunblaðsins, tali um grein Vilhjálms Bjarnasonar, sem langorða lygi.
„Ég var ekkert að tala um að við búum í Sovétríkjunum, varst þú ekki einmitt með þínu innleggi að ásaka greinahöfund um lygi. Var það ekki aðferðafræði þeirra í Sovétríkjunum og er enn. Ég hef ekki séð áður talað um langorða lygi um pistlahöfunda hjá Morgunblaðinu af þér eða öðrum ritstjórum, nema þegar mikið liggur við og þá er það gert undir rós a.m.k. ekki svona umbúðalaust. Ég þekki Vilhjálm ágætlega og þekki hann alls ekki af lygum, en hann getur vissulega orðið langorður eins og fleiri og er ekki gallalaus frekar en ég og þú.“
Fylgið sveiflist ekki út af einu máli – þó Morgunblaðið leggi allt undir
Þorkell vitnar í orð Stefáns Einars þar sem hann segir: „Ef þeir sem harðast ganga fram í þessu hefðu fremur leitað leiða til að sætta ólík sjónarmið, í stað þess að traðka á sjónarmiðum sem eiga fullt erindi í umræðuna, þá væri betur komið fyrir flokknum,“ og hefur þetta um það að segja:
„Þetta hefði frekar mátt segja um Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins, Staksteina o.fl. en [ég] veit ekki annað en flokksforystan hafi verið mjög hófstillt og látið allt yfir sig ganga í þessu. Það er fyrst og fremst annar ritstjóra blaðsins sem hefur farið fremstur í flokki í að traðka á sjónarmiðum annarra eða gera lítið út þeim. Sjálfur var hann ekki langt frá því að skipuleggja með aðstoð fjögurra lögmanna eina fyrstu árás gegn orkupakkanum í Valhöll, þar sem fundarmenn þorðu ekki annað en að rétta upp hendi fyrir fyrrverandi foringja flokksins, sem mundi taka formannssæti aftur fegins hendi. Af hverju voru bara fjórir stuðningsmenn neikvæðir gegn orkupakkanum þar á mælendaskrá og einn sem var búinn að segja málið á gráu svæði en var auðvitað hafður svona með til „sýnis“. Þessu andófi hefur síðan Mogginn, Útvarp Saga og Miðflokkurinn haldið gangandi. Valhöll undirbjó þetta ekki heldur andstæðingar orkupakkans í einstaka félögum flokksins. Allt partur af skipuögðu andófi gegn forystu flokksins og virkja svokallaða grasrót. Talað er um að þetta sé að kljúfa flokkinn, sem ég held að sé reyndar alrangt, því fylgið við hann sveiflast ekki út af einu svona máli þótt Mogginn o.fl. leggi allt undir.“