Lýsa stuðningi við tillögu um rafíþróttadeildir

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Formenn þriggja af stærstu íþróttafélögum Reykjavíkur hafa lýst stuðningi við tillögu Björns Gíslasonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að Reykjavíkurborg styðji íþróttafélögin í Reykjavík við að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna. Markmiðið er að koma í veg fyrir félagslega einangrun og auka félagsfærni barna og ungmenna.

„Þátttaka barna og ungmenna í íþróttastarfi hefur mikið forvarnargildi og hefur mjög jákvæð áhrif á félagsfærni barna, ekki síst til framtíðar litið. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á þessi jákvæðu tengsl. Það er nauðsynlegt að börn og ungmenni fái þjálfun í félagsfærni enda getur slík færni hjálpað þeim á öllum stigum lífsins, bæði í leik og starfi.

Við undirritaðir viljum styðja þessa tillögu og teljum að þetta geti bæði aukið fjölbreytni íþróttastarfs, en einnig leitt til að börn og ungmenni, sem ekki taka þátt í starfi íþróttafélaga sjái tækifæri til að sinna sínum hugðarefnum innan þeirra raða,“ segja Björn Einarsson, formaður Víkings, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson formaður KR og Jón Karl Ólafsson formaður Fjölnis í sameiginlegri yfirlýsingu.