Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag, að ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af fjölmörgum veikum ferðaþjónustufyrirtækjum hér á landi og ekki síst stöðu Icelandair.
Gylfi sat fyrir svörum á fundi nefndarinnar ásamt nýskipuðum seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni. Var þetta fyrsti þingnefndarfundur hans.
Gylfi sagði stöðu efnahagsmála hér á landi góða, en ástæða væri til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi. Mátti skilja á orðum hans að samdráttur þar, jafnvel kreppa, væri óumflýjanleg.
Ástandið í heiminum væri óeðlilegt og athyglisvert verði að sjá hvernig fjármálamarkaðurinn erlendis bregðist við næstu kreppu. Vextir væru víða neikvæðir og allt of lágir og svigrúm til aðgerða þar af leiðandi lítið sem ekkert. Annað væri uppi á teningnum hér á landi, þar sem hægt væri að lækka vexti til að koma nýrri uppsveiflu af stað.
„Við erum í lagi en heimurinn ekki,“ sagði Gylfi og benti á að þessa dagana og undanfarið mætti sjá afleiðingar fækkunar ferðamanna og á næstu vikum muni koma í ljós hvort veikburða aðilar í ferðaþjónustu lifi samdráttinn af.
Beindi hann kastljósinu sérstaklega að Icelandair, sem er þjóðhagslega mikilvægt flugfélag, ekki síst eftir fall WOW air.
Í ljósi viðvarandi tapreksturs upp á háar fjárhæðir þyrfti að gæta sérstaklega að eigið fé fyrirtækisins og spyrja þyrfti hvenær það væri komið á hættulegt stig. Ekki megi veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar skaðabætur frá Boeing-flugvélaframleiðandanum vegna kyrrsetningar MAX-vélanna.