Má ekki veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar bætur frá Boeing vegna MAX-véla

Gylfi Zoega prófessor.

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag, að ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af fjölmörgum veikum ferðaþjónustufyrirtækjum hér á landi og ekki síst stöðu Icelandair.

Gylfi sat fyrir svörum á fundi nefndarinnar ásamt nýskipuðum seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni. Var þetta fyrsti þingnefndarfundur hans.

Gylfi sagði stöðu efnahagsmála hér á landi góða, en ástæða væri til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi. Mátti skilja á orðum hans að samdráttur þar, jafnvel kreppa, væri óumflýjanleg.

Ástandið í heim­in­um væri óeðli­legt og at­hygl­is­vert verði að sjá hvernig fjár­mála­markaður­inn er­lend­is bregðist við næstu kreppu. Vextir væru víða neikvæðir og allt of lágir og svigrúm til aðgerða þar af leiðandi lítið sem ekkert. Annað væri uppi á teningnum hér á landi, þar sem hægt væri að lækka vexti til að koma nýrri uppsveiflu af stað.

„Við erum í lagi en heim­ur­inn ekki,“ sagði Gylfi og benti á að þessa dagana og undanfarið mætti sjá afleiðingar fækkunar ferðamanna og á næstu vikum muni koma í ljós hvort veikburða aðilar í ferðaþjónustu lifi samdráttinn af.

Beindi hann kastljósinu sérstaklega að Icelandair, sem er þjóðhagslega mikilvægt flugfélag, ekki síst eftir fall WOW air.

Í ljósi viðvarandi tapreksturs upp á háar fjárhæðir þyrfti að gæta sérstaklega að eigið fé fyrirtækisins og spyrja þyrfti hvenær það væri komið á hættulegt stig. Ekki megi veðja þjóðarbúinu á að Icelandair fái fullar skaðabætur frá Boeing-flugvélaframleiðandanum vegna kyrrsetningar MAX-vélanna.