„Mætum klædd eins og við séum að fara til tunglsins“

Þrír starfsmenn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sem sinnir einnig sjúkraflutningum, eru í einangrun nú um stundir vegna Kórónuveirunnar, Covid-19. Fjórir eru í sóttkví og sex hafa lokið annað hvort sóttkví eða einangrun.

Á fésbókarsíðu Slökkviliðsins segir af Lofti Þór Einarssyni, sem smitaðist nýverið í útkalli, en hann verið við störf hjá slökkviliðinu í tólf ár.

Loftur hefur verið í einangrun síðan 21. mars, en er ekki með mikil einkenni og er líðan hans góð, vonandi losnar hann úr einangrun 6. apríl.

Loftur vill koma því á framfæri hversu mikilvægt það sé að láta vita af staðfestu eða hugsanlegu smiti þegar óskað er eftir aðstoð frá sjúkrabíl:

„Þegar við mætum til ykkar, klædd eins og við séum að fara til tunglsins, í sóttvarnargalla, með grímur, með gleraugu og hanska, þá er það svo við getum haldið áfram að vinna fyrir ykkur, og til að við komumst heil heim til fjölskyldna okkar úr vinnunni,“ segir Loftur.

Hann biðlar til fólks að aðstoða við að hindra smit og taka fram, þegar hringt er í 112 og óskað eftir sjúkrabíl, hvort hugsanlegt eða staðfest smit sé á heimilinu.