Ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands birta í dag í fyrsta sinn opinberlega upplýsingar úr málaskrám sínum. Skyldu til þessarar birtingar var komið á með breytingu á upplýsingalögum árið 2019 en umrætt ákvæði tók gildi um síðustu áramót.
Á vef Stjórnarráðsins, sem greinir frá þessum tímamótum, birtast nú upplýsingar um mál sem skráð voru í málaskrá ráðuneytanna í janúar sl. en samkvæmt lögunum ber að birta lista yfir mál í næsta mánuði eftir að þau eru stofnuð.
Birting upplýsinga úr málaskrám ráðuneyta er liður í vinnu stjórnvalda við að auka upplýsingafrelsi og gagnsæi í stjórnsýslunni, að því er segir á vef forsætisráðuneytisins.