Johan Giesecke, einn fremsti sóttvarnalæknir heims, ver aðferðafræði Svía af hörku í viðtali sem birtist nú um helgina. Giesecke, sem var áður sóttvarnalæknir Svía, yfirmaður hjá Sóttvarnastofnun Evrópu og situr í ráðgjafaráði framkvæmdastjóra Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) segir að rétta leiðin til að verjast veirunni sé ekki að loka heilu þjóðfélögunum. Veiran sé ekki hættulegri en hefðbundið kvef og dánartíðnin sé fremur lág, eða 0,1%.
Giesecke, var sóttvarnalæknir Svía þegar hann réði Anders Tegnell til starfa fyrir tuttugu árum. Tegnell er nú yfir sóttvörnum Svía og hefur sætt harðri gagnrýni fyrir aðferðafræði sína sem er mjög frábrugðin því sem flest önnur lönd hafa gert.
Sænsk stjórnvöld viðurkennt að hafa brugðist of seint við kórónuveirufaraldrinum nú, en hafna því að áhersla þeirra á opið samfélag hafi verið stórkostleg mistök eins og margir vilja vera láta. Miklu fleiri hafa látist af völdum Covid-19 í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum.
Áhugafólk um faraldsfræði og viðbrögð við kórónuveirunni eru hvatt til að hlýða á mál Giesecke, en í stuttu máli setur hann fram þessa punkta í viðtalinu:
- Ákvörðun margra Evrópuríkja um útgöngubann og lokun heilu samfélaganna er ekki byggð á vísindalegum rökum.
- Áherslan ætti að vera á að vernda aldraða og viðkvæmari hópa.
- Með því móti er hægt að byggja upp hjarðónæmi.
- Skýrsla vísindamanna Imperial College í Lundúnum, sem varð til þess að margar ríkisstjórnir ákváðu harðari aðgerðir, var ekki sérlega vönduð. Fátítt er að óritrýnd vísindagrein hafi haft viðlíka áhrif.
- Endanleg niðurstaða, hvað varðar tölu látinna og sýktra, verður á endanum svipuð í flestum löndum — óháð hvaða aðferðum var þar beitt.
- Covid-19 er vægur veirusjúkdómur sem líkist helst árstíðabundinni flensu
- Dánartíðni af völdum Covid-19 er fremur lág, eða um 0,1%
- Væntingar standa til þess að helmingur íbúa í Bretlandi og Svíþjóð muni greinast með eftirstöðvar veirunnar þegar fjöldamælingar fyrir mótefnum hefjast meðal almennings. Flestir þeirra munu ekki hafa fundið fyrir neinum einkennum.
Viljinn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni út í ummæli Gieseckes á upplýsingafundi Almannavarna í dag og sagði hann eðlilegt að Svíar reyndu að verja þá aðferðafræði sem þeir hefðu beitt. Íslendingar hefðu valið aðra leið og með því tekist að verja heilbrigðiskerfið og hefta útbreiðslu veirunnar. Ef Ísland hefði farið að dæmi Svía og horft í kjölfarið upp á samsvarandi dánartölu miðað við fólksfjölda, hefði það orðið allt of mikill skellur fyrir íslenskt samfélag og farið mjög illa með íslenskt heilbrigðiskerfi.