Margar lausnir íslenska þjóðveldisins voru snilldarlegar

Eftir dr. Ásgeir Jónsson:

Athyglisvert er að Landnáma talar ekki um Ingólf Arnarsson sem fyrsta landnámsmanninn heldur þann frægasta „því at hann kom hér at auðu landi ok byggði fyrst landit og gerðu aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan.“

Á undan Ingólfi, eða samtíða, virðast hafa verið aðrir menn líkt og Geirmundur heljarskinn sem bjó á Skarðströnd og stundaði rányrkju á rostungum með vinnu þræla. (Sem Bergsveinn Birgisson rithöfundur hefur fjallað um í bók sinni um Svarta víkinginn.) En Geirmundur byggði ekki upp nýtt þjóðfélag. 

Sagan af þeim fóstbræðrum Hjörleifi og Ingólfi er þannig mjög táknræn. Hjörleifur var víkingur og Goðlauss maður – trúði væntanlega á mátt sinn á megin. Hann sigldi hingað til lands á skipi hlöðnu ránsfeng og þrælum. Ingólfur var aftur á móti bóndi er hafði „félagsfé“ þeirra tveggja úr Noregi á sínu skipi. Sem kunnugt er var Hjörleifur drepinn af því fólki sem hann hafði hertekið á Írlandi. Það kom síðan í hlut Ingólfs að byggja landið með lögum og vinnu frjáls fólks. 

Það var Þorsteinn, sonur Ingólfs, stofnaði fyrsta þingið á Kjalarnesi með stuðningi frænda og vina fyrir sunnan og vestan. Og stuttu seinna, eða 930, virðist sem Alþingi hafi verið stofnað út frá Kjalarnesþingi.

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

Þjóðveldið var borið uppi af sjálfseignarbændum – sem hver gat valið sér Goða til þess að fara með sín mál. Goðarnir töldu alls 36 af öllu landinu – og gerðu út um mál á þingum. Þjóðveldið hélt velli í 332 ár – sem er lengri tími en lýðræði hefur staðið í flestum löndum. 

Í öðrum tíma mínum í Haglýsingu fór ég yfir „afrek þjóðveldisins“ – hvernig ríkislaust þjóðfélag fór að því að finna lausnir á ýmsum sameiginlegum hagsmunamálum líkt og velferðarþjónustu, brunatryggingu, skattlagningu, löggildingu á gjaldmiðli og svo framvegis. Sumar af þessum lausnum voru snilldarlegar og voru í fullu gildi fram á tuttugustu öld.

Kennsluglósurnar mínar eru hér, ef einhver hefur áhuga. 

Höfundur er dósent í hagfræði og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.