Margaret Thatcher – umdeild en gerði Breta hamingjusamari

Barónessa Margaret Thatcher, fv. forsætisráðherra Bretlands og formaður Breska íhaldsflokksins.

„Við viljum þjóðfélag þar sem fólki er frjálst að taka ákvarðanir, gera mistök, vera örlátt og miskunnsamt. Þetta er það sem átt er við með siðferðislegu samfélagi; ekki samfélag þar sem ríkið er ábyrgt fyrir öllu og enginn ber ábyrgð á ríkinu.“

Þessi orð eru úr erindi Margaret Thatcher heitinnar, f.v. forsætisráðherra Bretlands, sem hún flutti á hagfræðiráðstefnu í Zürich í Sviss, 14. mars árið 1977. Hún hefði orðið 94 ára sl. sunnudag.

Vísindamenn við háskólana í Warwick og Glasgow, ásamt Alan Thuring stofnuninni hafa komist að því að hamingja Breta jókst eftir að Thatcher tók við embætti forsætisráðherra árið 1979, en frá því greindi breska blaðið The Telegraph.

Þeir tölvugreindu mikið magn ritverka og blaðagreina, yfir 200 ára tímabil og komust að því að botninum var náð „Óánægjuveturinn (e. Winter of Discontent)“ 1978/79. Þrátt fyrir að hún hafi verið umdeild í embætti, sýna gögn fram á að hamingja bresku þjóðarinnar óx í embættistíð hennar.

Festa og pólitísk sýn sem breyttu sögunni – heima fyrir og í heiminum

Thatcher innleiddi stefnur sem miðuðu að því að draga úr miklum samdrætti og atvinnuleysi sem plagað hafði Bretland í langan tíma. Pólitísk sýn hennar og efnahagsstefna lögðu áherslu á að minnka reglubáknið, stuðla að sveigjanleika á vinnumarkaði, einkavæðingu á ríkiseignum og því draga úr áhrifum verkalýðsfélaganna, sem á þeim tíma bárust á og héldu atvinnulífinu í heljargreipum.

Sem leiðtogi var Thatcher þekkt fyrir festu og að gefa aldrei neinn afslátt í ákvörðunum sínum. Talið er að áhrif stjórnartíðar hennar og Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, hafi m.a. átt þátt í falli Sovétríkjanna árið 1989, og frelsun milljóna manna í framhaldinu, undan hungri, skorti og alræði sósíalískrar hugmyndafræði.

Thatcher hlaut hún nafnbótina „Járnfrúin“ – sem sovéskir leiðtogar gáfu henni. Hún var þekkt fyrir andstöðu sína við Evrópusambandið – sem m.a. varð henni að lokum að falli, þegar sumir hennar eigin þingmanna sneru við henni baki – og hún neyddist til að segja af sér embætti árið 1990.