Margir læknar hugsi og jafnvel reiðir yfir opnun landsins

Már Kristjánsson yfirlæknir.

„Þessi ákvörðun um að opna landið er mjög umdeild. Það sýnist sitt hverjum. Margir af mínum kollegum eru mjög hugsi um þetta og jafnvel reiðir að þetta skuli vera gert,“ sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans í viðtali á Morgunvaktinni á RÚV í morgun.

Hann segir að ekki ríki einhugur innan heilbrigðiskerfisins um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að opna landið á ný.

Már segir að verið sé að gera áhættumat fyrir spítalann svo hægt sé að bregðast við þessum breytingum. Samkvæmt heimildum Viljans er yfirstjórn Landspítalans undrandi á því að ekki hafi verið beðið með að tilkynna um opnunina þar til áhættumatið lægi fyrir.

„Þetta er ákveðin tilraun,“ sagði Már ennfremur og benti á að mikill þrýstingur væri á opnun af efnahagslegum ástæðum. Allir viti að það sé alvarlegt ástand í samfélaginu. Hér takist á heilbrigðissjónarmið og efnahagsleg.

„Ég held að þessi sterku viðbrögð fólk séu að sumu leyti angst eða ótti um að við séum að kalla yfir okkur hörmungar, sem kann að vera að við séum að gera í ljósi þess sem við þekkjum utan úr heimi, þar sem samfélög fóru hryllilega illa út úr þessu. Við virðumst hafa sloppið fyrir horn ennþá allavega. Mér finnst þetta vera réttmæt tilfinning hjá fólki að þetta muni kannski verða eitthvað hræðilegt tímabil. Það er alveg skiljanlegt. En þá þurfum við líka að setja okkur í stellingar og búa okkur undir þetta. Og reyna að draga þá úr áhrifum þessa sem mest við megum,“ segir hann.