Margt bendir til að fjórða bylgjan sé skollin á

Ljósmynd: Lögreglan

Margt bendir til þess að ný bylgja COVID-19 sé hafin eða að hefjast hér á landi. Nokkrir einstaklingar greindust með veiruna um helgina og voru þeir ekki allir í sóttkví. Þá kom upp hópsmit í súrálsskipi frá Brasilíu sem lagði að Mjóeyrarhöfn um helgina og þrír liggja nú inni á Landspítala með alvarleg veikindi, þar af í fyrsta sinn tveir erlendir ferðamenn.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, staðfesti í Bítinu á Bylgjunni að ný smit væru að koma upp og ekki tengd innbyrðis, sem bendir til þess að smit séu komin upp úti í samfélaginu og farin að blossa upp. Alls greindust 21 tilfelli um helgina, þar af sex utan sóttkvíar.

Svo virðist sem breska afbrigði veirunnar, sem er meira smitandi en önnur og virðist valda yngra fólki meiri veikindum, sé farið að breiða úr sér hér á landi.

Á Vísi segir að áttatíu nemendur og fjórir starfsmenn Laugarnesskóla séu komin í sóttkví eftir að kennari við skólann greindist með veiruna við sýnatöku. Fréttavefur mbl.is segir jafnframt að tvö knattspyrnulið, Fylkir og Stjarnan, séu komin í sóttkví eftir að leikmaður Árbæjarliðsins greindist með COVID-19.

Þar sem smit eru að greinast á víð og dreif og að því er virðist ótengd innbyrðis eru varla skilyrði lengur til að flokka þetta sem einangraða hópsýkingu. Frekar að ný bylgja sé hafin hér innanlands.

Lögreglan á Austurlandi segir í tilkynningu, að tíu skipverjar á Taur­us Con­fi­dence, súráls­skipi með 19 manna áhöfn, hafi greinst með COVID-19 og séu í einangrun, en skipið kom til Reyðarfjarðar í gær frá Sao Luis í Brasil­íu. Skipið lagði að Mjó­eyr­ar­höfn við ál­ver Fjarðaáls.