Margvísleg sjónarmið tengd persónuvernd vegna áforma um opnun landamæranna

Margvísleg sjónarmið tengd persónuvernd geta komið upp í tengslum við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lagt til varðandi opnun landsins á ný fyrir ferðamönnum, að sögn Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar.

Í skýrslu starfshóps ráðuneytisstjóra um opnun landamæra frá 15. júní nk. eru viðraðar ýmsar leiðir. Til dæmis að ferðamönnum verði gefinn kostur á að sleppa við 14 daga sóttkví með því að gangast undir veirupróf í Leifsstöð og hlaða niður smitrakningarforriti, svo unnt sé að kortleggja ferðir viðkomandi hér á landi og mögulegar smitleiðir.

Viljinn bar áformin undir Persónuvernd. Helga segir að í persónuverndarstefnu smitrakningarforritsins eða appsins, sem sé starfrækt á vegum Almannavarna og Embættis landlæknis, komi fram að byggt sé á samþykki einstaklinga.

„Forsenda þess að samþykki teljist fullnægjandi samkvæmt persónuverndarlögunum er að það sé gefið af fúsum og frjálsum vilja. Ef vilji stjórnvalda stendur til þess að skylda þá sem ferðast hingað til lands að hlaða niður forritinu getur þurft að endurskoða núgildandi lög. Þá þarf einnig að hafa í huga hversu raunhæft úrræði það er að skylda ferðamenn til að nota slíkt forrit, þar sem einstaklingar geta alltaf t.d. eytt forritinu af símanum símanum og þar með stöðvað söfnun upplýsinganna,“ segir hún.

Í skýrslu ráðuneytisstjóranna segir að margvísleg álitamál varðandi persónuvernd og mannhelgi komi upp vegna áforma af þessu tagi.

Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar. Ljósmynd: Útvarp Saga.