„Listinn er náttúrlega eins og fólkið í Sósíalistaflokknum, hópur af baráttuglöðu fólki sem vill breyta samfélaginu, gera það betra,“ segir María Pétursdóttir, sem skipar fyrsta sætið á lista Sósíalistaflokksins í Suðvesturkjördæmi, Kraganum.
Fram kemur í tilkynningu frá flokknum, að slembivalinn hópur félaga í Sósíalistaflokknum raði á lista fyrir kosningar. Reynslan hafi sýnt að niðurstaða slembivalinna hópa gefi í flestum tilfellum skýrari mynd af vilja grasrótar en kosning eða prófkjör. Þetta sama lag hafi verið haft við val flokksins á listum fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018 og verði notað við val á lista flokksins fyrir þingkosningarnar í haust og fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor.
„Erindi Sósíalista til fólks í Kraganum er það sama og til allra landsmanna,“ segir María. „Við viljum draga völdin til fólksins þar sem þau eiga heima og það mun leiða til aukins jöfnuðar og réttlætis. Við viljum tryggja öllum réttinn til mannsæmandi lífs, öruggs húsnæðis og losa fólk undan nagandi afkomukvíða. Við viljum að allir sjáist og heyrist. Það er eina leiðin til að byggja upp gott samfélag, að við eigum það saman. Það er kjarni sósíalismans.“
Þór Saari, sem kosinn var á þing fyrir Borgarhreyfinguna 2009, er í öðru sæti listans. Hann segir Sósíalistaflokkinn allra flokka líklegastann til að leiða þær nauðsynlegu kerfisbreytingar sem gera þurfi á íslensku samfélagi. „Flokkurinn er hæfilega róttækur og er skipaður kjarkmiklu fólki sem mun ekki gangast inn á hefðbundin Fjórflokkastjórnmál. Sósíalistar munu ætíð vera með almannahag og hag þeirra verst settu í fyrirrúmi.“
Listinn í heild sinni:
- María Pétursdóttir, myndlistakona/öryrki
- Þór Saari, hagfræðingur
- Agnieszka Sokolowska, bókavörður
- Luciano Dutra, þýðandi
- Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, tónlistarmaður og kvikmyndagerðarkona
- Hörður Svavarsson, leikskólastjóri
- Nanna Hlín Halldórsdóttir, nýdoktor
- Sæþór Benjamín Randalsson, matráður
- Ingibjörg Ýr Jóhannsdóttir, rannsóknarlögreglumaður og stjórnsýslufræðingur
- Tómas Ponzi, garðyrkjubóndi
- Sara Stef. Hildardóttir, upplýsingafræðingur
- Agni Freyr Arnarson Kuzminov, námsmaður
- Zuzanna Elvira Korpak, námsmaður
- Sigurður H. Einarsson, vélvirki
- Silja Rún Högnadóttir, myndlistarnemi
- Alexey Matveev, skólaliði
- Elísabet Freyja Úlfarsdóttir, námsmaður
- Arnlaugur Samúel Arnþórsson, garðyrkjumaður
- Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður i heimaþjónustu
- Baldvin Björgvinsson, framhaldsskólakennari
- Elsa Björk Harðardóttir, grunnskólakennari og öryrki
- Jón Hallur Haraldsson, forritari
- Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir, leikskólakennari
- Gísli Pálsson, mannfræðiprófessor
- Erling Smith, tæknifræðingur og öryrki
- Sylviane Lecoultre, iðjuþjálfi