Markmiðið að ná smitunum niður í núll: Áætlanir miða ekki við bóluefni

„Þegar ég settist á þing árið 2007 sá ég fyrir mér að ég yrði tvö kjörímabil,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans í dag. „Ég er á fimmta kjörtímabili nú,“ bætir hún við og segist aldrei hafa getað ímyndað sér að takast á við tvær efnahagslegar kollsteypur sem stjórnmálamaður og ráðherra. Fyrst 2008 og nú vegna kórónuveirufaraldursins.

„Maður á aldrei von á svona hlutum,“ segir hún og bætir við hlæjandi að það fari að vakna sú spurning, hvort hún eigi yfir höfuð að vera í ríkisstjórn.

Katrín ræðir í viðtalinu hvort tilefni sé til að fresta forsetakosningum sem fara eiga fram í sumar, hvað þurfi meira að gera til að bjarga atvinnulífinu og fyrirtækjunum frá fjöldagjaldþroti, heimilunum frá tekjufalli og viðhalda atvinnustiginu. Hún segir ljóst að meira þurfi að gera, einkum þurfi að horfa til ferðaþjónustunnar sem sjái fram á ferðamannalaust sumar og eins til smærri fyrirtækja og einyrkja sem hafi hreinlega verið bannað að afla sér tekna.

Hún segir að síðar í dag verði kynnt samkomulag stjórnvalda og Seðlabankans um brúarlán til fyrirtækja og stutt sé í kynningu á næsta efnahagspakka stjórnvalda.

Forsætisráðherra segist skynja eðlilega gleði meðal þjóðarinnar með þann árangur sem hafi náðst í sóttvörnum og tíðindin um afléttingu ýmissa takmarkana þann 4. maí hafi blásið fólki kjark í brjóst. „Mér finnst samt mikilvægt að segja það hér, að við getum ekki hrósað sigri ennþá. Þessu er ekki lokið og við þurfum að halda út. Markmiðið á að vera að ná smitunum niður í núll.“

Aðspurð um þau ummæli menntamálaráðherra að ekki verði unnt að opna landið aftur fyrir ferðaþjónustu fyrr en bóluefni sé fundið, segir forsætisráðherra að ekki sé hægt að miða áætlanir stjórnvalda út frá slíku. Í fyrsta lagi sé bóluefnið ekki til og ekki liggi fyrir hvenær eða hvort það finnist. Það sé margt til skoðunar, en ekki sé hægt að miða áætlanir út frá slíkri óvissu.